01

Ávarp formanns

Starfsár Samtaka atvinnulífsins hefur eins og annarra einkennst af viðureigninni við Covid-19. Í stað þess að fara um og heimsækja félagsmenn samtakanna og kynnast þannig því sem á þeim brennur og almennt um viðfangsefni fyrirtækjanna höfum við þurft að reiða okkur á annars konar samskipti; fjarfundi og nettengsl. Svo góð sem þau geta verið koma þau aldrei í stað beinna samtala, funda og þess að sjá með eigin augum verðmætasköpunina í atvinnulífinu.

Áhrif kórónuveirunnar hafa einkum bitnað á ferðaþjónustunni sem hefur þurft að glíma við meiri samdrátt að umfangi en unnt var að ímynda sér fyrir fram. Afleiðingarnar koma einkum fram gagnvart almenningi í miklu atvinnuleysi og minnkandi tekjum sem veldur auknum áhyggjum og félagslegum vanda. Sem betur fer búum við að öflugu stuðningskerfi sem getur linað vandann að hluta. Fyrirtækin í landinu standa undir fjármögnun atvinnuleysisbóta með greiðslu tryggingagjalds í ríkissjóð.

Lokið er öðru ári Lífskjarasamningsins sem gerður var í apríl 2019 og gildir til nóvember 2022. Efnahagsaðstæður við gerð samningsins voru allt aðrar en þær sem ríkt hafa undanfarið ár og hafa gert mörgum fyrirtækjum erfitt að standa undir launahækkunum sem samningurinn gerir ráð fyrir. Það urðu okkur mikil vonbrigði að ekki reyndist unnt að fá verkalýðsfélögin til að fallast á breytingar til að koma til móts við aðstæður í atvinnulífinu. Það hefði getað hjálpað mörgum fyrirtækjum og dregið úr atvinnuleysi og afleiðingum þess. Vilji til samtala, gagnkvæmur skilningur og geta til að leita lausna sem gagnast gætu bæði fólki og fyrirtækjum var því miður ekki til staðar hjá forystufólki verkalýðshreyfingarinnar.

Ríkisstjórnin hefur með fjölmörgum aðgerðum mildað áhrif Covid-19 á efnahagslífið. Þær helstu eru hlutabætur, viðspyrnustyrkir, tekjufallsstyrkir, stuðningslán, brúarlán, greiðsluhlé og greiðsluskjól lána, frestun skattgreiðslna, endurgreiðslur virðisaukaskatts, lokunarstyrkir, ferðagjöf, greiðsla launa á uppsagnarfresti og í sóttkví og nú síðast ráðningarstyrkir. Þess vegna er efnahagssamdrátturinn ekki eins mikill og óttast var og svartsýnar spár gerðu ráð fyrir. Einnig verður að nefna aukinn stuðning við rannsóknir, nýsköpun og þróun með eflingu Tækniþróunarsjóðs, stofnun Matvælasjóðs og Kríu – sprota og nýsköpunarsjóðs en þar er horft til verðmætasköpunar sem hefur áhrif til lengri tíma. Við mótun aðgerðanna hefur verið haft samráð við samtök okkar. Ástæða er til að þakka ríkisstjórninni og hrósa fyrir að gera sér fljótt grein fyrir umfangi vandans og að bregðast við - skjótt og vel.

Þótt ferðaþjónustan hafi einkum orðið fyrir áhrifum af kórónuveirunni þá hefur hún einnig bitnað á fyrirtækjum í öðrum greinum en með hóflegri hætti. Þau hafa sýnt styrk sinn með því að framleiðsla, innlend verslun og þjónusta og ýmis önnur starfsemi hefur haldið sinni stöðu og þannig tryggt að höggið hefur orðið minna en ella.

Faraldurinn er í lágmarki innanlands um þessar mundir og hefur verið það um tíma. Eftir því sem bólusetningu vindur fram má sjá fyrir að slakað verði á hömlum hér innanlands og á landamærunum innan tíðar.

Á stjórnvöldum hvílir sú skylda að skapa samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir atvinnulífið og sjá til þess að það sé jafnan í fremstu röð meðal nálægra ríkja. Áhyggjuefni er hve hægt hefur gengið að efla samkeppnishæfnina á alþjóðlega mælikvarða og eins hve hægt hefur gengið að ná fram nauðsynlegri hagræðingu sem þarf að eiga sér stað víða í atvinnulífinu. Rannsóknir Samkeppniseftirlitsins ná jafnan til liðins tíma en það má hafa efasemdir um að stofnunin sé öðrum fremri að sjá fyrir þróun markaða til framtíðar. Efla þarf samtal atvinnulífs, samkeppnisyfirvalda og stjórnvalda með þessi sjónarmið í huga. Það verður ef vel er gert öllum til hagsbóta þegar upp er staðið.  Verðmætasköpun þarf að efla og hún verður til í atvinnulífinu með frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja sem sækja fram á mörkuðum og leitast við að styrkja sína stöðu í harðri, alþjóðlegri samkeppni. Það gerist ekki með því að fjölga opinberum störfum.

Þrátt fyrir allt er ástæða til að horfa björtum augum til framtíðar; til staðar er styrkur grunnur í fyrirtækjunum, öflugt starfsfólk og mikil þekking. Nýsköpun blómstrar sem aldrei fyrr og sókn á markaði innan lands og utan mun taka kipp þegar hömlunum léttir sem við Íslendingar eins og aðrir höfum búið við undanfarið ár.

Eyjólfur Árni Rafnsson  
formaður Samtaka atvinnulífsins