Í upphafi ársins 2020 voru tíu þúsund skráðir atvinnulausir, samanborið við sex þúsund ári fyrr, og hlutfallslegt atvinnuleysi var 5,0%.
Þegar kórónukreppan skall á fjölgaði skráðum atvinnulausum í 39 þúsund, en hlutabótaleið stjórnvalda studdi við hluta þeirra. Þannig voru 24 þúsund að fullu atvinnulausir í mars en 15 þúsund í hlutastarfi og fengu hlutabætur frá Vinnumálastofnun á móti hinu skerta starfshlutfalli. Hlutabótaúrræðið náði hámarki í apríl 2020 þegar 29 þúsund starfsmenn fengu hlutabætur en atvinnulausir í heild voru 49 þúsund. Hlutfallslegt atvinnuleysi mældist tæplega 18% og þar af 10% vegna þeirra sem voru á hlutabótum.
Fjöldi starfandi og atvinnuleysi á tímum kórónukreppunnar
320 kjarasamningar
Á tímabilinu maí 2019 til apríl 2021 mars undirrituðu SA 126 kjarasamninga sem náðu til tæplega 110 þúsund starfsmanna. Samningalotunni, sem staðið hefur óslitið frá hausti 2018 eða í tvö og hálft ár, er þó enn ólokið þar sem enn hefur ekki verið gengið frá 14 fyrirtækjasamningum. Samningalotur á Íslandi taka þannig allt að þrjú ár þótt skýr stefna sé mörkuð í upphafi með aðkomu stjórnvalda.
Samningalotu ríkis og sveitarfélaga við stéttarfélög lauk í desember 2020. Ríkið gerði 59 kjarasamninga sem tóku til 23 þúsund starfsmanna og sveitarfélög gerðu 78 kjarasamninga sem náðu yfir 31 þúsund starfsmenn. Ríki og sveitarfélög gerðu þannig samtals 137 kjarasamninga sem tóku til 54 þúsund starfsmanna. Kjarasamningar innan hins opinbera voru þannig fleiri en kjarasamningar SA en náðu til helmingi færri starfsmanna.
Loks gerðu önnur samtök vinnuveitenda, eða einstök fyrirtæki utan vébanda SA, 55 kjarasamninga sem tóku til átta þúsund starfsmanna og nokkrum er enn ólokið. Þá eru ótaldir kjarasamningar sjómanna sem eru fjórir og taka til 3.500 starfsmanna.
Lokauppgjör samningalotunnar er þá þannig að gerðir hafa verið 320 kjarasamningar og 20 er ólokið (sjómenn ekki meðtaldir). Kjarasamningarnir voru með 170 þúsund félagsmenn stéttarfélaga á atkvæðaskrá. Þeir skiptust þannig að 108 þúsund voru í aðildarfélögum innan ASÍ, 44 þúsund í aðildarfélögum bandalaga opinberra starfsmanna (BSRB, BHM ogKÍ) og 18 þúsund utan heildarsamtaka (t.d. stéttarfélög F-stétta, fjármálastarfsmanna, hjúkrunarfræðinga, lækna).
Fjöldi kjarasamninga 2019–2021 eftir atvinnurekendum
Fjöldi kjarasamninga 2019–2021 eftir heildarsamtökum launafólks
Laun hækka þrefalt meira en í viðskiptalöndunum
Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um tæplega 16% á tveggja ára tímabilinu milli janúarmánaða 2019 og 2021. Á ársgrundvelli er hækkunin 7,5%. Hluti hækkunarinnar er vegna vinnutímastyttingar en Hagstofan mat áhrif styttingar á almennum vinnumarkaði árið 2019 til 0,8 prósenta hækkunar vísitölunnar og styttingar opinberra starfsmanna til 0,4 prósenta hækkunar. Vinnutímastyttingin hefur þannig hækkað launavísitöluna samtals um 1,2 prósentur hingað til, en frekari hækkana er að vænta vegna styttingar vaktavinnufólks hjá hinu opinbera frá apríl 2021 og upplýsinga um nánari útfærslur á framkvæmd styttingar innan hins opinbera.
Launahækkanir á Íslandi hafa verið margfalt meiri en í viðskiptalöndunum undangengin ár og áratugi. Flestum ætti að vera ljóst að þetta er kerfislægt einkenni á íslenskum vinnumarkaði sem smám saman safnar upp verðhækkunartilefnum og stuðlar að veikingu krónunnar vegna ósjálfbærrar veikingar samkeppnisstöðu atvinnulífsins og neikvæðum viðskiptajöfnuði vegna of hás kaupmáttar miðað við undirliggjandi stöðu þjóðarbúsins.
Á síðasta ári, ári kórónukreppunnar, hækkaði tímakaup á Íslandi um 6,2% en um 2,4% í OECD-ríkjunum og 1,7% á hinum Norðurlöndunum að meðaltali, skv. OECD. Svipað er uppi á teningnum öll fyrri ár og áratugi. Frá árinu 2014 hefur tímakaup á Íslandi hækkað um 52%, samanborið við 22% í OECD-ríkjunum og 14% á hinum Norðurlöndunum að meðaltali.