04

Efnahagsmál

Í upphafi ársins 2020 var útlit fyrir hóflegan hagvöxt eftir langt og kröftugt hagvaxtarskeið. Þær horfur breyttust mjög skyndilega með tilkomu heimsfaraldurs kórónuveiru snemma árs. Um allan heim gripu stjórnvöld til afgerandi aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar, svo sem takmarkanir á samkomum og ferðalögum. Slíkar sóttvarnaraðgerðir höfðu mikil og víðtæk smitáhrif út í atvinnulífið og hafa yfirvöld vestrænna ríkja gripið til ýmissa efnahagslegra örvunaraðgerða í kjölfarið af áður óþekktri stærðargráðu.

Sögulegt áfall

Hagspár tóku verulegum breytingum á árinu 2020 eftir því sem faraldurinn þróaðist hérlendis sem erlendis, enda ríkti nánast fullkomin óvissa um framvindu mála mestallt árið. Bráðabirgðaniðurstöður gefa til kynna að samdrátturinn í landsframleiðslu hafi að endingu numið 6,6%, sem er betri niðurstaða en vænst var. Til samanburðar nam samdráttur landsframleiðslu 7,7% á árinu 2009 eftir hrun fjármálakerfisins. Landsframleiðsla á mann dróst hins vegar saman um 8,2% að raungildi á seinasta ári sem er mesti samdráttur sem mælst hefur hérlendis á þann mælikvarða. Gert er ráð fyrir að heimsframleiðslan hafi dregist saman um 3,3% á árinu 2020 vegna faraldursins.

Gert er ráð fyrir að heimsframleiðslan hafi dregist saman um 3,3% á árinu 2020 vegna faraldursins.

Ferðamenn hurfu eins og síldin

Viðbúið var að faraldurinn hefði veruleg efnahagsleg áhrif hérlendis sökum mikilvægi ferðaþjónustu sem útflutningsgreinar. Spá Hagstofunnar gerði ráð fyrir 8,4% samdrætti þegar verst lét en sviðsmyndir greiningaraðila máluðu margar hverjar enn svartari mynd um tíma, sér í lagi áður en tilkynnt hafði verið um mikilvægustu efnahagsaðgerðir yfirvalda. Gera má ráð fyrir að fjölþætt viðbrögð stjórnvalda hafi mildað höggið þrátt fyrir að faraldurinn hafi dregist mun meira á langinn en vonast var til í upphafi. Þá glæddust væntingar heimila og fyrirtækja samhliða tilkomu bóluefnis á síðari hluta ársins sem, ásamt úrræðum yfirvalda, veitti einkaneyslu og fjárfestingu stuðning, en samdráttur þeirra liða var talsvert minni en óttast hafði verið.

Hagvöxtur á Íslandi

Raunbreyting vergrar landsframleiðslu (%)
Hagvöxtur
Þjóðhagsspá Hagstofu
Heimild: Hagstofa Íslands

Hagvöxtur Evrópuríkja árið 2020

Bráðabirgðatölur eða meðaltal ársfjórðungslegs hagvaxtar (%)
Heimild: Hagstofa Íslands, OECD & útreikningar efnahagssviðs SA

Samdrátturinn í landsframleiðslu skýrðist fyrst og fremst af verulega neikvæðu framlagi utanríkisviðskipta, en innflutningur dróst saman um 22% á meðan samdráttur útflutnings nam 31%. Viðskiptajöfnuður hélst engu að síður jákvæður á árinu ólíkt fyrri samdráttartímabilum. Algjört hrun varð í komum erlendra ferðamanna með tilheyrandi tekjutapi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustutengdum greinum og þrýstingi til veikingar krónu. Á árinu 2019 hafði þegar tekið að hægjast um, en þá sóttu tvær milljónir ferðamanna landið heim sem var 14% samdráttur milli ára. Á árinu 2020 voru ferðamenn aftur á móti einungis um 480 þúsund talsins, sem er svipaður fjöldi og tíðkaðist fyrir rúmum áratug, og var fækkun um 76% milli ára. Það er því ekki að undra að fyrirtæki í ferðaþjónustutengdri starfsemi hafi mörg hver barist í bökkum á árinu sem leið. Spár greiningaraðila gera ráð fyrir að fjöldi ferðamanna muni ekki ná tveimur milljónum á ný fyrr en árið 2023 hið fyrsta.

Komur erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll

Milljónir farþega
Heimild: Ferðamálastofa

Landsframleiðsla 2020 og undirliðir

Ársbreyting (%)
Heimild: Hagstofa Íslands

Aðgerðir yfirvalda milduðu höggið

Til að stemma stigu við áhrifum faraldursins réðust yfirvöld í margvíslegar efnahagslegar aðgerðir, til viðbótar við svokallaða sjálfvirka sveiflujafnara. Skattkerfi og bótakerfi breyttist lítið svo verulegur halli varð á opinberum rekstri sem kallaði á lántöku ríkissjóðs. Hallinn myndaðist vegna samspils minni tekna og aukinna útgjalda, sem sjálfvirkt viðbragð við efnahagsástandinu, en einnig var ráðist í sértækar efnahagsaðgerðir til að taka á þeim sérstæða efnahagsvanda sem myndaðist vegna sóttvarnaraðgerða. Efnahagsáfallinu vegna veirufaraldursins var afar misskipt og var nauðsyn sértækra aðgerða því meiri en oft áður til að tryggja sem besta virkni aðgerðanna og skilvirka nýtingu opinbers fjár.

Aðgerðir hins opinbera við COVID-19

(%)
Mótvægisaðgerðir
Endurmat og sjálfvirkir sveiflujafnarar

Hluti mótvægisaðgerða sem nýtist heimilum og fyrirtækjum

M.v. stöðuna í apríl 2021 (m.kr.)
Fyrirtæki:
Tekjufallsstyrkir, Viðspyrnustyrkir, Stuðnings- og viðbótarlán, frestun skattgreiðslna,
Lokunarstyrkir, greiðsla launa á uppsagnarfresti og í sóttkví.
Heimili:
Hlutabætur, endurgreiðsla VSK og ferðagjöf.
Heimild: Fjármála- og efnahagsráðuneytið & útreikningar efnahagssviðs SA

Efnahagsaðgerðirnar miðuðu fyrst og fremst að því að viðhalda ráðningarsamböndum, forða gjaldþrotum fyrirtækja og verja tekjur þeirra heimila sem urðu fyrir atvinnumissi. Í því samhengi var hlutastarfaleiðin meðal gagnlegustu aðgerðanna að mati félagsmanna SA, en hún felst í því að þeir sem þurfa tímabundið að minnka starfshlutfall sitt geta fengið atvinnuleysisbætur fyrir vinnuskerðinguna. Þá hafa verið veittir beinir styrkir til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli eða gert að loka vegna sóttvarnaraðgerða. Einnig hefur verið boðið upp á ýmis önnur úrræði svo sem ríkistryggð lán, greiðsluskjól lána, frestun skattgreiðslna, aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts og heimild til úttektar séreignarsparnaðar svo dæmi séu nefnd. Þá réðst ríkissjóður í sérstakt fjárfestingarátak vegna COVID-19 og jók verulega stuðning við nýsköpun. Um 4.300 fyrirtæki hafa nýtt sér úrræði yfirvalda, flest lítil ferðaþjónustufyrirtæki, og um 36 þúsund einstaklingar hafa fengið greiddar bætur vegna minnkaðs starfshlutfalls.

Forsendubrestur í fjármálum hins opinbera

Í ljósi gjörbreyttra aðstæðna birti ríkisstjórnin endurskoðaða fjármálastefnu og fjármálaáætlun haustið 2020 fyrir árin 2021-2025 þar sem falla þurfti frá nýlega settum fjármálareglum vegna forsendubrests í efnahagslífinu. Var það í annað sinn í tíð ríkisstjórnarinnar sem fjármálastefnan var endurskoðuð. Fyrra skiptið var við fall WOW Air á árinu 2019, en gjaldþrot annars stærsta íslenska flugfélagsins hafði áður þótt tilefni til gagngerrar endurskoðunar á fjármálum hins opinbera. Endurskoðunin hin seinni var öllu viðameiri. Áætlað var að halli ríkissjóðs á árunum 2020-2021 gæti numið 600 milljörðum og að skuldir hins opinbera gætu aukist um 20% af landsframleiðslu á sama tímabili. Niðurstaða ársins 2020 varð þó sýnu betri en áætlað hafði verið, en afkoma hins opinbera reyndist þá vera neikvæð um 215 milljarða eða um 7% af landsframleiðslu.

Áætlunin gaf einnig til kynna að skuldaaukning hins opinbera gæti numið 1.200 milljörðum á hinu fimm ára tímabili. Í nýrri fjármálaáætlun fyrir 2022-2026, sem birtist vorið 2021, kom svo bersýnilega í ljós að þó niðurstaða ársins 2020 hafi verið nokkru betri en vænst var er staðan enn alvarleg. Áætlaður halli á rekstri hins opinbera á árinu 2021 er nú 355 milljarðar eða 11% af áætlaðri landsframleiðslu og ekki sér fyrir endann á skuldasöfnun hins opinbera nema gripið verði til sérstakra ráðstafana á tekju- eða útgjaldahlið á tímabilinu, að öðru óbreyttu.

Afkoma hins opinbera

Leiðrétt fyrir einskiptisliðum (% VLF)
Áætlun
Heimild:  Hagstofa Íslands og Fjármálaráðuneytið

Skuldir hins opinbera

% VLF
Áætlun
Heimild:  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Íslands og Fjármálaráðuneytið

Í mars 2021 birti Fitch Ratings nýtt lánshæfismat fyrir ríkissjóð. Þrátt fyrir hið mikla áfall í fjármálum hins opinbera og fyrirséða skuldaaukningu ríkisins var lánshæfiseinkunnin A staðfest, þó með neikvæðum horfum. Þetta sterka lánshæfismat byggðist einkum á traustu undirliggjandi hagkerfi, góðum árangri í ríkisfjármálum á undanförnum árum, góðu stjórnarfari, sterkum mannauði og vel fjármögnuðu lífeyrissjóðakerfi. Á móti vinna smæð hagkerfisins og skortur á fjölbreytileika útflutnings sem auka næmni fyrir ytri áföllum og geta því ógnað greiðslujöfnuði þjóðarbúsins.

Neikvæðu horfurnar skýrðust einkum af áhrifum faraldursins á ríkissjóð, sem birtist í miklum hallarekstri og hraðri skuldasöfnun. Meðal helstu áhættuþátta sem skert gætu lánshæfi ríkissjóðs á komandi misserum eru, að mati Fitch, mögulegir erfiðleikar í stöðvun skuldasöfnunar hins opinbera, dráttur á efnahagsbata í útflutningsgreinum, hugsanlegt ójafnvægi á fasteignamarkaði og neikvæð áhrif efnahagsástandsins á fjármálakerfið. Til að viðhalda þeim hagstæðu lánakjörum sem ríkissjóður býr við nú er því mikilvægt að skriður komist á atvinnustarfsemi sem fyrst og að yfirvöld leggi fram trúverðugar áætlanir sem varða leiðina að hallalausum fjárlögum á ný.

Neikvæðu horfurnar skýrðust einkum af áhrifum faraldursins á ríkissjóð, sem birtist í miklum hallarekstri og hraðri skuldasöfnun.

Atvinnuleysi náði sögulegum hæðum

Í apríl 2020 mældist svokallað heildaratvinnuleysi, sem einnig tekur tillit til atvinnuleysis tengt minnkuðu starfshlutfalli, 18% hjá Vinnumálastofnun. Þá voru 16 þúsund einstaklingar í almenna bótakerfinu en 33 þúsund í minnkuðu starfshlutfalli. Eftir því sem leið á árið dró úr fjölda þeirra sem voru í skertu starfshlutfalli á meðan almennt atvinnuleysi óx jafnt og þétt, en það fór úr 5% í 11% á árinu. Í lok árs voru því um 20 þúsund einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu á meðan 5 þúsund voru í minnkuðu starfshlutfalli.

Langtímaatvinnuleysi jókst einnig allverulega á árinu, eða um 155% milli ára. Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara mældist 24% í árslok en hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysiskrá var 41%. Atvinnuástand var því með eindæmum slæmt á árinu 2020 sem endurspeglaðist meðal annars í verulega auknum útgjöldum ríkissjóðs til atvinnuleysistrygginga. Námu greiðslur ríkissjóðs vegna almennra atvinnuleysisbóta 54 milljörðum á árinu 2020 en 24 milljörðum vegna hlutabóta. Höfðu fjárlög ársins 2020 gert ráð fyrir 32 milljörðum í málaflokkinn áður en faraldurinn skall á. Aukið atvinnuleysi mældist í öllum atvinnugreinum hins almenna vinnumarkaðar í kjölfar heimsfaraldursins en mest voru áhrifin í ferðaþjónustutengdum greinum þar sem atvinnuleysi þrefaldaðist eða fjórfaldaðist milli ára.

Mánaðarlegt atvinnuleysi

Janúar 2019 til febrúar 2021 (%)
Atvinnuleysi alls
Atvinnuleysi með hlutabótum
Heimild: Vinnumálastofnun

Atvinnulausir eftir atvinnugreinum í desember 2019 og á sama tíma 2020

Fjöldi
Desember 2020
Desember 2019
Heimild: Vinnumálastofnun

Laun héldu áfram að hækka

Þrátt fyrir sögulegt atvinnuleysi hækkuðu laun allverulega á árinu í samræmi við þegar undirritaða kjarasamninga. Meðaltals árshækkun launavísitölu Hagstofunnar mældist 6,1% á almennum vinnumarkaði en 7,0% hjá opinberum starfsmönnum á árinu 2020. Meðalverðbólga á sama tímabili nam 3% og var því um talsverða aukningu kaupmáttar að ræða hjá þeim sem ekki urðu atvinnulausir. Á sama tíma fækkaði að jafnaði í fjölda starfandi á almennum vinnumarkaði um 12 þúsund (-9%) á meðan opinberum starfsmönnum fjölgaði um 3 þúsund (+6%) milli ára, gróflega áætlað.

Breyting í fjölda starfandi milli 2019 og 2020

Skráargögn (%)
Heimild: Hagstofa Íslands & útreikningar efnahagssviðs SA

Þróun vísitölu neysluverðs og launavísitölu

Vísitala = 100 í jan. 2020
Vísitala neysluverðs
Launavísitala
Heimild: Hagstofa Íslands & útreikningar efnahagssviðs SA

Í ljósi efnahagsþrenginga og mikils atvinnuleysis var gerð tilraun til viðræðna við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar um frystingu eða frestun launahækkana eða annarra breytinga á kjarasamningum sem væru til þess fallnar að verja atvinnustig. Ekki reyndist vilji hjá verkalýðshreyfingunni til slíkrar tilhögunar og stóðu kjarasamningar því óbreyttir í gegnum kórónukreppuna. Ákvæði samninganna um hagvaxtarauka, sem tryggja átti hlut launþega í verðmætasköpun þjóðarbúsins á tímum mikils hagvaxtar, tók ekki til skerðinga þrátt fyrir mikinn efnahagssamdrátt. Nú þegar hagvöxtur tekur við sér á ný má aftur á móti eiga von á frekari launahækkunum vegna hagvaxtaraukans, þó svigrúm margra fyrirtækja til slíkra launahækkana verði líklega af skornum skammti í ljósi þess áfalls sem dunið hefur yfir. Slík þróun væri ekki til þess fallin að veita auknum krafti í ráðningar fyrirtækja en efnahagsspár gera þegar ráð fyrir hægum bata á vinnumarkaði og þrálátu atvinnuleysi.

Ekki reyndist vilji til slíkrar tilhögunar og stóðu kjarasamningar því óbreyttir í gegnum kórónukreppuna.

Verðbólga þokaðist upp á við

Árið 2020 mældist verðbólga að meðaltali 2,8% og 3% þegar horft er fram hjá áhrifum húsnæðisliðar. Hefur húsnæðisverð verið megindrifkraftur verðbólgu undanfarin ár en sterkt gengi krónu og litlar hækkanir á innfluttum vörum hafa vegið á móti. Veiking krónunnar í kjölfar áfalla í ferðaþjónustu og raskana á virðiskeðjum um heim allan vegna heimsfaraldurs hefur orðið til þess að verðhækkanir á innfluttum vörum leggjast nú á sveif með húsnæðisverðshækkunum.

Seðlabankinn vann þó á móti frekari veikingu krónunnar með umtalsverðum inngripum á gjaldeyrismarkaði en bankinn taldi frekari veikingu í andstöðu við efnahagslegar undirstöður og raungengi undir jafnvægi. Var verðbólga yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans meginþorra ársins 2020 og fór yfir efri vikmörk bankans í janúar síðastliðnum, í fyrsta skipti síðan í desember 2013. Gangi spár Seðlabankans eftir er þó útlit fyrir að verðbólga aukist lítið eitt á þessu ári en hjaðni nokkuð hratt eftir því sem dregur úr áhrifum gengisveikingar og verði við verðbólgumarkmið strax árið 2022.

Verðbólga

Ársbreyting í vísitölu neysluverðs (%)
Vísitala neysluverðs
Vísitala neysluverðs án húsnæðisliðar
Verðbólgumarkmið
Heimild: Hagstofa Íslands

Meðalgengi og raungengi íslensku krónunnar

Vísitala = 100 jan. 2019
Gengisvísitala
Raungengi á mælikvarða verðlags
Heimild: Seðlabanki Íslands

Hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans á millibankamarkaði

Janúar 2019 til febrúar 2021 (ma.kr.)
Hrein gjaldeyriskaup (v.ás)
Uppsafnað (h.ás)
Heimild: Seðlabanki Íslands

Vextir héldu áfram að lækka

Eftir myndarlegar vaxtalækkanir Seðlabankans árið 2019 stóðu meginvextir bankans í 3% í upphafi árs. Seðlabankinn hafði því talsvert svigrúm til að bregðast við efnahagsáfallinu sem fylgdi kórónuveirufaraldrinum, ólíkt kollegum sínum víða erlendis, og lét sitt ekki eftir liggja þrátt fyrir vaxandi verðbólgu. Alls lækkuðu meginvextir bankans um 225 punkta á árinu og stóðu í 0,75% við lok árs. Hafa þeir aldrei verið lægri en nú þó peningastefnan hafi enn svigrúm til lækkunar gerist hennar þörf.

Vaxtalækkanir Seðlabankans leiddu fremur til aukinna útlána til heimila en fyrirtækja en ársvöxtur útlána lánakerfisins til heimila var um 6% á seinasta ári á meðan vöxtur útlána til fyrirtækja var nær enginn. Ætla má að stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafi dregið úr lánsfjárþörf fyrirtækja í mörgum tilvikum þó sum fyrirtæki hafi sótt sér lánsfé með öðrum leiðum, svo sem með lántöku erlendis, útgáfu markaðsskuldabréfa eða hjá fagfjárfestasjóðum. Vaxtalækkanir hafa leitt til aukinna umsvifa á fasteignamarkaði en velta ársins var í fyrsta sinn eftir fjármálakreppu meiri að raunvirði en á árinu 2007. Þá hafa heimili endurfjármagnað lán sín og aukið þannig ráðstöfunartekjur. Aukin ásókn var hjá heimilum í óverðtryggð lán og lán á breytilegum vöxtum sem auka munu virkni peningastefnunnar horft fram á veg.

Meginvextir Seðlabanka Íslands

Vextir á sjö daga bundnum innlánum (%)
COVID-19
Heimild: Seðlabanki Íslands

Nauðsyn þess að búa yfir heilbrigðum efnahag og sterkum efnahagslegum stoðum sannaði gildi sitt á árinu en íslenska hagkerfið hefur sjaldan verið betur í stakk búið til að takast á við efnahagssamdrátt. Hrein erlend eignastaða nam 21% af landsframleiðslu í upphafi árs, hélt áfram að vaxa á árinu og stóð í 35% við lok árs eða sem nemur 1.039 milljörðum króna, þrátt fyrir efnahagsþrengingar og áföll í útflutningi. Studdi Seðlabankinn við gengi krónunnar á árinu með inngripum og hefur selt gjaldeyri fyrir nær 170 milljarða frá ársbyrjun 2020. Gekk því nokkuð á gjaldeyrisforðann sem nam þó 886 milljörðum króna í lok árs og telst því enn vel rúmur. Sterk staða þjóðarbúsins skapar traust á íslensku efnahagslífi og myndar góðan grunn fyrir þá uppbyggingu sem fram undan er.

Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands

Milljarðar króna
Heimild: Seðlabanki Íslands

Hrein erlend staða þjóðarbúsins

Ársfjórðungsleg staða (% VLF)
Heimild: Seðlabanki Íslands

Væntingar teknar að glæðast en vandfetaður vegur framundan

Í kjölfar tilkomu veirunnar sökk væntingavísitala Gallup niður í lægstu gildi sem sést hafa frá fjármálahruni. Eftir jákvæðar fréttir af þróun bóluefnis síðla árs tóku væntingar þó að glæðast og nú í upphafi árs 2021 eru fleiri orðnir jákvæðir en neikvæðir gagnvart efnahagshorfum á ný. Þá er meirihluti forsvarsmanna fyrirtækja innan vébanda SA nú einnig orðinn bjartsýnn á rekstur fyrirtækis síns næstu sex mánuði. Bjartsýni meðal aðila í ferðaþjónustu mælist enn heldur minni, enda ríkir áfram veruleg óvissa um horfur í greininni næstu misserin og mun ferðasumarið 2021 ráða úrslitum um lífvænleika margra fyrirtækja.

Alvarlegar áskoranir eru framundan í íslensku efnahagslífi. Útlit er fyrir mikið og viðvarandi atvinnuleysi jafnvel eftir að gert er ráð fyrir að hagkerfið nái fullri framleiðslugetu, sem ber vott um ný vandamál á vinnumarkaði. Engu að síður er von á frekari launahækkunum. Að standast alþjóðlega samkeppni í slíku umhverfi verður krefjandi fyrir íslensk fyrirtæki og mörg þeirra munu lenda undir. Óheppilegt væri ef erfiðleikar í fjármálum hins opinbera leiddu að auki til skattahækkana eins og raunin varð eftir fjármálakreppuna og þegar heyrast raddir um í aðdraganda Alþingiskosninga sem verða í haust. Ísland er háskattaríki og vermir nú 30. sætið af 36 á lista Tax Foundation yfir samkeppnishæfni skattkerfa OECD landa. Ekki er rými til að falla um mörg sæti á þeim lista.

Eftir jákvæðar fréttir af þróun bóluefnis síðla árs tóku væntingar þó að glæðast og nú í upphafi árs 2021 eru fleiri orðnir jákvæðir en neikvæðir gagnvart efnahagshorfum á ný.

Skattahækkanir í núverandi árferði munu bæta litlu við tekjur ríkissjóðs. Þær hafa aftur á móti hamlandi áhrif á atvinnusköpun, sem er grundvöllur hagvaxtar og þar með lífskjara almennings og stöðu ríkissjóðs. Til að forðast slíkar ráðstafanir er nú komið að yfirvöldum að feta í fótspor atvinnurekenda á tímum kórónukreppunnar og leita allra leiða til að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri svo takmarkaðir fjármunir séu nýttir eins skynsamlega og hægt er.

Fjölmargar aðrar áskoranir bíða. Ber þar helst að nefna lýðfræðilega þróun sem leiðir til þess að sífellt færri vinnandi hendur standa undir samneyslunni. Það sem ráða mun mestu um lífskjör þjóðarinnar á komandi áratugum verður það hversu vel mun takast til við að auka hagvöxt og framleiðni þjóðarbúsins svo hægt verði að gera meira fyrir minna og njóta áfram þeirra góðu lífskjara sem hér finnast. Ekki þarf að efast um þann kraft sem býr í íslensku atvinnulífi. Til að hann megi virkja sem best þurfa yfirvöld hins vegar að veita meðbyr í stað mótvinds.