Við ritun síðustu ársskýrslu var sérstaklega fjallað um þau gríðarlegu áhrif sem heimsfaraldur kórónaveirunnar hafði þá haft á atvinnulífið. Ekki hefur dregið úr þessum áhrifum. Á síðustu tólf mánuðum hafa stjórnvöld kynnt fjölda úrræða fyrir íslenskum atvinnurekendum. Úrræðin hafa í flestum tilfellum miðað að því að verja störf, innviði og önnur verðmæti fyrirtækja með það fyrir augum að fyrirtæki verði fljót að ná vopnum sínum á ný þegar kófinu lýkur.
Sem dæmi um úrræði má nefna:
Lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar (nr. 57/2020)
Lög um viðspyrnustyrki (nr. 160/2020)
Lög um tekjufallsstyrki (nr. 118/2020)
Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem heimiluð var svokölluð hlutabótaleið
Jafnvel þó að einhverjir hafi kosið að líta á margar þessara aðgerða sem styrk eða stuðning við fyrirtækin var hugmyndin sú að standa vörð um lífsviðurværi einstaklinga og fjölskyldna með því að verja störf og koma í veg fyrir að verulega drægi úr atvinnuþátttöku. SA hafa á hverjum tíma rýnt í tillögur, veitt umsagnir og leitast við að liðka fyrir upplýsingamiðlun til félagsmanna samhliða því sem ný úrræði hafa verið kynnt til sögunnar.
SA hafa á hverjum tíma rýnt í tillögur, veitt umsagnir og leitast við að liðka fyrir upplýsingamiðlun til félagsmanna samhliða því sem ný úrræði hafa verið kynnt til sögunnar.
Höldum áfram - sköpum tækifæri og störf
Í nóvember kynntu SA nýjan vef undir yfirskriftinni Höldum áfram. Þar eru kynntar fjölbreyttar tillögur Samtaka atvinnulífsins sem allar miða að því að varða leiðina út úr kreppunni. Tillögurnar eru settar fram í sex flokkum en þær snúa að opinberum rekstri, skattastefnu, regluverki, grænni viðspyrnu, vinnumarkaðnum og menntamálum.
Á síðunni má einnig finna viðtöl við atvinnurekendur, fróðlega tölfræði og svokallaða velferðarreiknivél. Þar er sýnt fram á í tölum hvað starfsfólk og fyrirtæki þeirra leggja til samfélagsins í formi skattgreiðslna.
Einföldun regluverks
Lagaumhverfi íslensks atvinnulífs má ekki verða of íþyngjandi þó vissulega sé mikilvægt að atvinnulífið búi við skýrar leikreglur og að almenningur sé varinn gegn ólögmætri háttsemi. Of hamlandi og flókið umhverfi eykur kostnað sem minnkar svigrúm til launagreiðslna og veikir samkeppnishæfni. Minni samkeppnishæfni leiðir til færri starfa og minni skatttekna sem gerir hið opinbera verr í stakk búið til að standa undir grunnþjónustu.
Einföldun laga- og eftirlitsumhverfis atvinnulífsins er því hagsmunamál allra landsmanna og nauðsynlegur þáttur til að bæta kjör og tryggja næga atvinnu.
Faglegri lagasetning
Stjórnarfrumvörpum og reglugerðum ætti að fylgja mat á áhrifum á fyrirtæki. Þegar um íþyngjandi reglur er að ræða ætti að skilgreina markmið og rökstyðja að því verði ekki náð með öðrum hætti. Þegar EES-gerðir sem hafa áhrif á atvinnulífið eru innleiddar ætti
- ekki að fara umfram lágmarkskröfur gerðanna
- gildissvið ekki að vera víðtækara en gerðanna
- að nýta allar ívilnandi undanþágur
- að afnema allar kröfur sem skarast og fyrir eru í lögum.
Sé vikið frá ofangreindu ætti að rökstyðja slík frávik. Til bóta væri jafnframt ef komið yrði á fót upplýsingaveitu yfir lög, reglugerðir og auglýsingar í hverri atvinnugrein. Þá er mikilvægt að fella breytingar á reglugerðum jafnóðum inn í stofnreglugerðir.
Sveigjanleg og rafræn kerfi í stað þungrar stjórnsýslu
Þegar rætt er um íþyngjandi regluverk og hömlur koma ýmis konar leyfi tengd atvinnurekstri fljótt uppá yfirborðið. Leyfisskylda er íþyngjandi hér á landi og dæmi um að fyrirtæki þurfi að sækja leyfi, s.s. starfsleyfi og rekstrarleyfi á ólíka staði, stundum eftir að beðið er eftir umsögnum frá mismunandi stofnunum.
Mikilvægt er að leyfisskylda hér á landi sé ekki meira íþyngjandi en brýn nauðsyn krefur, enda hafa slíkar kvaðir verulega hamlandi áhrif á frumkvöðlastarfsemi þar sem nýta þarf kraftana í annað en útfyllingu opinberra pappíra með tilheyrandi kostnaði. Því miður er raunin sú að reglubyrðin þyngist jafnt og þétt, en hið gagnstæða þarf að eiga sér stað eigi ný fyrirtæki að verða til og eldri að geta þrifist eins og best verður á kosið.
Mikilvægt er að leyfisskylda hér á landi sé ekki meira íþyngjandi en brýn nauðsyn krefur, enda hafa slíkar kvaðir verulega hamlandi áhrif á frumkvöðlastarfsemi þar sem nýta þarf kraftana í annað en útfyllingu opinberra pappíra með tilheyrandi kostnaði.
Skipulags- og byggingarmál
Tækifæri til einföldunar regluverks og eftirlits felast m.a. í skipulags- og byggingarmálum. Því mætti til að mynda ná fram með sameiningu stofnana. Eins hafa SA fjallað um tækifæri sem felast í því að auka aðgengi að opinberri þjónustu með rafrænum leiðum. Nokkur skref hafa verið tekin í þessa veru en mikið verk er eftir óunnið á sviðinu og brýnt að horft sé til þessara þátta þegar kemur að innviðafjárfestingum rétt eins og vega- og mannvirkjaframkvæmdum.
Til að varpa enn frekara ljósi á tækifæri sem þarna kunna að leynast vann VSÓ Ráðgjöf skýrslu fyrir Samorku, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins um ávinning rafrænnar þjónustu í leyfisveitingaferli. Niðurstaðan er að rafræn gátt myndi einfalda leyfisveitingar framkvæmda og mat á umhverfisáhrifum og þannig sparað tíma, tryggt betra aðgengi almennings og aukið skilvirkni og aðhald í vinnubrögðum. Í skýrslunni kemur einnig fram að leyfisveitingaferli sé flókið, tímafrekt og óskilvirkt. Sömu gögn eru ítrekað lögð fram. Dæmi eru um að framkvæmd fari 17 sinnum í umsagnarferli og að hver stofnun fjalli 10 sinnum um málið. Mat á umhverfisáhrifum sé óþarflega flókið miðað við löggjöf í nágrannalöndum. Með rafrænni gátt og breyttu verklagi væri hægt að einfalda matið verulega, án þess að skerða aðgengi almennings og hagsmunaaðila eða ganga gegn Evróputilskipunum.
Það er mat þeirra sem að skýrslunni komu að tækifæri til einföldunar séu til staðar, tæknin sem þarf er að ryðja sér til rúms og yfirlýstur vilji stjórnvalda er að koma á slíkum umbreytingum. Ávinningurinn er augljós, að mati SA.
Hér má lesa skýrsluna í heild.
Stafræn þróun er lykilatriði
Verkefnið Stafrænt Ísland er talið geta sparað allt að 4 milljarða króna á ári með stafrænni umbyltingu í hvers kyns þjónustu hins opinbera. Gott dæmi um slíkt eru rafrænar þinglýsingar sem verða að veruleika síðar á þessu ári. Þjóðhagslegur ávinningur er mikill og er að lágmarki metinn á bilinu 1.2 - 1.7 milljarðar króna á ári.
Ávinningurinn er ekki síður sparnaður borgaranna á tíma hjá sýslumönnum, lánastofnunum, fasteignasölum og almenningi. Áhersla stjórnvalda á innleiðingu stafrænna lausna er skref í rétta átt að sjálfsögðum aðgangi einstaklinga og fyrirtækja að opinberri þjónustu sem felur í sér mikið hagræði.
Hér má sjá upplýsandi fund um stöðu rafrænna þinglýsinga sem haldinn var fyrr á árinu.
Samkeppnislög
Heilbrigð samkeppni hvetur fyrirtæki til dáða og stuðlar að lægra verði og betri þjónustu fyrir neytendur. Of íþyngjandi samkeppnisreglur og samkeppniseftirlit vinna hins vegar gegn eðlilegri hagræðingu sem leiðir til hærra verðs en ella. Íslensku samkeppnislögin byggja á regluverki Evrópusambandsins. Þó hefur verið farin sú leið hér á landi að ganga skrefinu lengra í setningu íþyngjandi reglna en gert er í Evrópu. Það er sérstakt í ljósi smæðar landsins. Íslenskt hagkerfi er lítið í öllum skilningi og hefur lengst af verið einangrað. Breytingar eru þó að verða á íslenskum markaði og þar gætir aukinnar samkeppni, bæði frá fyrirtækjum sem starfa hér og þeim sem bjóða vöru eða þjónustu í gegnum netið eða í fjarsölu. Nauðsynlegt er að innlendar aðstæður endurspegli breyttan veruleika og aðilum sé gert kleift að hagræða og sameinast til að mæta samkeppninni.
Samkeppnisréttur er sérstakt réttarsvið að því leyti að með honum er reynt að búa til regluverk til að hafa áhrif á hagfræðilegar forsendur og frjálsan markað. Beiting reglnanna er því matskennd og ræðst að töluverðu leyti af ytri aðstæðum. Þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar í samkeppnismálum liggja oft ekki ljósar fyrir og óvissa getur ríkt um réttindi og skyldur einstakra fyrirtækja. Litlir markaðir bjóða óhjákvæmilega ekki upp á jafnmikla samkeppni og stórir. Þessu verða stjórnvöld í smáríkjum eins og Íslandi að sýna skilning. Strangari reglur í samkeppnismálum hér gera það að verkum að íslenskt atvinnulíf er ekki eins samkeppnishæft og í Evrópu.
Eftirlitsmenningin hefur litast svolítið af tortryggni en ætti miklu frekar að einkennast af trausti og gagnkvæmri virðingu fyrirtækja og stofnana. Eftirlitsstofnanir mega ekki ganga út frá því að lögbrot séu eðlilegur þáttur í starfi vinnandi fólks og rekstri fyrirtækja.
Í júní 2020 voru samþykktar breytingar á samkeppnislögum, nr. 44/2005. Breytingarnar fólu m.a. í sér tímabærar umbætur á samkeppnislögum sem auðvelda hagræðingu í atvinnulífinu og einfalda meðferð samkeppnismála. T.d. voru gerðar þær breytingar að fyrirtæki meta sjálf hvort skilyrði fyrir undanþágum frá bannákvæðum 10. og 12. gr. laganna séu uppfyllt og veltumörk tilkynningarskyldra samruna eru hækkuð.
SA hafa talað fyrir mikilvægi þess að ráðast í frekari breytingar sem eru til þess fallnar að draga úr óþarfa kostnaði og stuðla að sanngjarnari málsmeðferð.
- Afnema málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins til þess að stytta málsmeðferð og samræma við önnur stjórnsýslumál.
- Afnema heimild til aðgerða gegn fyrirtækjum sem ekki hafa brotið gegn samkeppnislögum.
- Afnema heimild til endurupptöku mála því hún veldur réttaróvissu og fer gegn meginreglu réttarfars.
- Lögbinda tímafresti á mál sem Samkeppniseftirlitið hefur til meðferðar og skýra forgangsröðun.
- Gera Samkeppniseftirlitinu skylt að gefa út leiðbeiningar um skilgreiningu á mörkuðum og hvernig framkvæmd verði.
- Greiða vexti af ofteknum sektum.
- Samkeppniseftirlitið hafi heimild til að gefa út bindandi álit til að auka fyrirsjáanleika.
- Færa réttarstöðu málsaðila varðandi húsleitir og haldlagningar nær því sem gildir á Norðurlöndum og fylgja sakamálalögum.
Opinbert eftirlit
Á Íslandi er aragrúi stofnana sem annast eftirlit með fólki og fyrirtækjum. Eftirlitsmenningin hefur litast svolítið af tortryggni en ætti miklu frekar að einkennast af trausti og gagnkvæmri virðingu fyrirtækja og stofnana. Eftirlitsstofnanir mega ekki ganga út frá því að lögbrot séu eðlilegur þáttur í starfi vinnandi fólks og rekstri fyrirtækja. Vandamálin eru margvísleg en stöðlun á framkvæmd eftirlits gæti verið ein lausnin. Draga þarf úr matskenndum þáttum og gæta þess að niðurstöður eftirlitsstofnana séu ekki dregnar af geðþóttaákvörðunum heldur fyrirfram skilgreindum matsþáttum.
Opinbert eftirlit ætti að taka breytingum eins og annað samfara framþróun og breyttum viðhorfum. Í því samhengi væri skynsamlegt að greina og ná utan um umfang opinbers eftirlits með kerfisbundnum hætti og endurmeta reglur sem í gildi eru. Meta þarf hvort tilteknar reglur eigi ennþá við. Að auki þarf að vera á varðbergi gagnvart innleiðingu nýrra reglna, sérstaklega alþjóðlegra, að þær flæki reglurammann ekki um of þannig að erfitt sé fyrir fyrirtæki að framfylgja þeim. Heildstætt mat ætti að fara fram á fyrirliggjandi umgjörð, þ.e. að gömlum reglum sé skipt út fyrir nýjar í stað þess að regluverkið sé stöðugt þyngt.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. SA munu áfram fylgja því eftir að við það verði staðið. Í nóvember 2020 var kynnt samkeppnismat OECD á regluverki ferðaþjónustu og byggingariðnaðar þar sem gerðar voru 438 tillögur til úrbóta og breytinga á gildandi lögum og reglum til að auka samkeppnishæfni greinanna. SA voru mjög fylgjandi því að samkeppnismatið færi fram og hafa talað fyrir því að slíkt mat sé framkvæmt á öllum sviðum atvinnulífsins.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. SA munu áfram fylgja því eftir að við það verði staðið.
Umsagnir
Til að tryggja hagsmuni atvinnulífsins sinna SA ritun umsagna.
Umsagnarbeiðnir um mál berast SA frá Alþingi, ráðuneytum, stofnunum og fyrirtækjum. Þegar nýjar reglur eru settar er varða rekstrarskilyrði fyrirtækja og atvinnulífið í heild standa SA vaktina og gæta þess að hugað sé að hagsmunum fyrirtækja. Auk þess eru mál tekin upp mál að eigin frumkvæði og athygli stjórnvalda eða almennings vakin á þeim.
Í umsögnum SA á árinu bar þetta hæst
Frumvarp til laga um gjaldeyrismál
SA tóku til umsagnar frumvarp til laga um gjaldeyrismál. Efnislega fól frumvarpið í sér fáar breytingar frá núgildandi lögum. Að stærstum hluta er um að ræða uppfærða hugtakanotkun, aukin skýrleika og lögin almennt aðlöguð að nútíð. Þá er áréttuð sú meginregla að gjaldeyrisviðskipti skuli vera frjáls.
Þessu til viðbótar var þremur þjóðhagsvarúðartækjum Seðlabanka Íslands fundinn varanlegur staður hjá þjóðhagsvarúðarnefnd nema hin svokallaða sérstaka bindiskylda sem heyra á undir sameiginlega ákvörðun Seðlabankastjórana fjögurra.
Í umsögnum sínum um málið bentu SA á að hin sérstaka bindiskylda væri sannanlega þjóðhagsvarúðartæki og að ákvarðanir um beitingu hennar ættu því með réttu heima hjá þjóðhagsvarúðarnefnd Seðlabankans. Slíkt myndi auka gagnsæi og tryggja að ytri nefndarmeðlimir geti veitt viðeigandi og nauðsynlegt aðhald við beitingu bindiskyldunnar.
Að síðustu var í frumvarpinu lagt til að færa varanlega í lög heimild handa Seðlabankanum, með samþykki ráðherra, til að grípa til „varúðarráðstafana við sérstakar aðstæður“, þ.e. setningar gjaldeyrishafta. SA settu sig alfarið gegn slíkum áformum og viðruðu áhyggjur sínar af mögulegum afleiðingum þessa. Að mati SA getur efnahagslegur kostnaður, hvort sem reyna muni á heimildina eður ei, orðið mikill enda geti hún haft fælandi áhrif á erlenda fjárfesta. Bentu SA á að æskilegt væri að lágmarka hvata til þess að setja ótímabær höft og tryggja að beiting þeirra sé síðasta mögulega úrræði. Gjaldeyrishöft skuli ávallt vera tímabundin og að slík neyðarúrræði kalli ekki á varanlega heimild í lögum. Málið gekk til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Frumvarp til laga um vexti og verðtryggingu (takmarkanir á notkun verðtryggingar í lánssamningum til neytenda)
SA studdu frumvarpið en gerðu tillögur að breytingum. Í fyrsta lagi lögðu SA til fjölgun valkosta lántaka í stað fækkunar. Í öðru lagi að undanþága fyrir ungt fólk og tekjulág yrði afnumin. Í þriðja lagi bentu SA á að rökstuðning skorti fyrir afnámi undanþágu vegna lána þar sem veðsetningarhlutfall er 50% eða minna á lántökudegi. Málið gekk til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Samvinnufélög o.fl. (viðurlög vegna hlutfalls kynja í stjórn)
SA studdu frumvarpið en gerðu tillögur að breytingum. Í fyrsta lagi lögðu SA til fjölgun valkosta lántaka í stað fækkunar. Í öðru lagi að undanþága fyrir ungt fólk og tekjulág yrði afnumin. Í þriðja lagi bentu SA á að rökstuðning skorti fyrir afnámi undanþágu vegna lána þar sem veðsetningarhlutfall er 50% eða minna á lántökudegi. Málið gekk til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Hvatar til fjárfestinga
SA, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök iðnaðarins og Samtök ferðaþjónustunnar tóku til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt þar sem lagðir voru til jákvæðir hvatar til fjárfestinga í baráttu við loftslagsvána. Samtökin fögnuðu frumvarpinu en gerðu athugasemdir við sérstaka ívilnun til að styðja við umhverfisvænar fjárfestingar þar sem heimilt yrði að reikna 15% fyrningarálag á stofnverð grænna eigna. Samtökin lögðu til víðtækara gildissvið, afnám opinberrar birtingar á lista yfir skattaðila sem nýta sér fyrningarálag, vægari skilyrði og að úrræðið ætti jafnframt við um opinber fyrirtæki. Frumvarpið varð að lögum í apríl 2021 og tekið var tillit til einhverra athugasemda samtakanna.
Sóttvarnalög
SA gerðu ítarlega umsögn um frumvarp til laga um breytinga á sóttvarnalögum. Að mati SA er mikilvægt að stjórnvöld láti fara fram óháða rannsókn á faraldrinum hér á landi, hvernig til hafi tekist um sóttvarnir, hverjar afleiðingarnar hafi verið á efnahag fólks og fyrirtækja, hverjar félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar séu og ekki síst hvernig takast eigi á við hliðstæða atburði sem síðar kunni að verða. Að mati SA var skynsamlegt að bíða með breytingu á sóttvarnalögum þar til faraldurinn yrði yfirstaðinn og niðurstöður óháðrar rannsóknar lægju fyrir. SA gerðu jafnframt einstakar athugasemdir við frumvarpið eins og það lá fyrir Alþingi. Frumvarpið varð að lögum í febrúar 2021.
Jöfn staða og jafn réttur kynjanna
SA tóku til umsagnar ný heildarlög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. SA áttu fulltrúa í starfshópum sem unnu að frumvarpinu og studdu frumvarpið að mestu leyti. Í umsögninni lögðu SA til að jafnlaunastaðfesting, sem var nýmæli í lögunum, næði til fyrirtækja og stofnana þar sem störfuðu allt að 99 manns að jafnaði á ársgrundvelli í stað 49 manns. SA lögðu jafnframt til aflagningu jafnréttisráðs í núverandi mynd og að finna mætti vinnu þess nýjan farveg. Loks lögðu SA til starfshópur yrði skipaður til að leggja fram tillögur til lagabreytinga sem fyrirbyggja ómálefnalegan launamun í stað þess að skipaður yrði starfshópur sem fjallaði um launagagnsæi. Að einhverju leyti var tekið tilllit til athugasemda SA. Frumvarpið varð að lögum í desember 2020.