Aðstæður dagsins í dag, á tímum heimsfaraldurs, gera til okkar enn frekari kröfur um mikilvæg úrræði í menntakerfinu til skemmri tíma. Úrræði í formlega skólakerfinu og því óformlega. SA hafa talað fyrir því að til slíkra úrræða verði gripið, meðal annars í gegnum vinnu í starfsmenntasjóðum og á vettvangi fræðslumiðstöðvar svo dæmi séu tekin. Þar er sérstaklega litið til aðgerða sem mæta stórum hópi sem tekst á við atvinnuleysi, hefur ekki hlotið formlega menntun og hefur ekki vald á íslensku. Þá hafa SA meðal annars talað máli þeirra sem gætu nýtt sér úrræði vegna tímabundins atvinnuleysis sökum efnahagsaðstæðna og þeirra sem missa störf til lengri tíma vegna tækniþróunar.
Íslenskt menntakerfi er á margan hátt öflugt og framsækið þó við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum. Ör tækniþróun, brottfall úr skólum, staða drengja og hátt hlutfall barna með erlent móðurmál eru til að mynda áskoranir sem krefjast nýrrar nálgunar.
Ör tækniþróun, brottfall úr skólum, staða drengja og hátt hlutfall barna með erlent móðurmál eru til að mynda áskoranir sem krefjast nýrrar nálgunar.
Það er óásættanlegt að námsárangur íslenskra nemenda sé lakari en á öðrum Norðurlöndum. Til þess að bregðast við þeirri þróun er nauðsynlegt að velta við öllum steinum. Í þessu sambandi hafa SA bent á að innihald námsins eins og það birtist í námsskrám sé eitt en annað sé kerfislæg umgjörð námsins. Það er mikilvægt að ræða viðkvæm mál á gagnrýnin hátt, þar á meðal lengd sumarleyfa, skólaskyldualdurinn, námsefni, kennaramenntun, kjarasamningaumhverfið, skipulag, afburðanemendur og viðhorf til heimanáms.
Þá þarf róttækar aðgerðir sem fela í sér eflingu STEM greina; greinanna sem hafa forspárgildi um það hvernig við munum sem þjóð standa okkur í nýsköpun á komandi árum.
Eitt af áherslumálum SA er kerfislæg breyting á íslensku menntakerfi um lengd sumarleyfa. Erlendar rannsóknir sýna að löng sumarfrí hafa slæm áhrif á námsárangur. Kennarar kannast við að börn snúi aftur að hausti og hafi gleymt sumu af því sem þau lærðu að vori. Þetta á sérstaklega við um börn sem standa höllum fæti í námi, t.d. þau 11% sem hafa erlent móðurmál hér á landi. Fólk sem vinnur að barnaverndarmálum segir að meira álag sé á fjölskyldum sem þurfa stuðning þegar líður á sumarfríið.
Þannig má ætla að stytting námstíma grunnskólans í níu ár með styttingu sumarfría myndi ekki bara bæta námsárangur heldur minnka kennaraskort og spara fé sem mætti nýta áfram í kerfinu, t.d. með hærri launum kennara.
Menntadagurinn
Á Menntadegi atvinnulífsins 2021 var fjallað um færni framtíðarinnar. Um er að ræða áttunda skiptið sem dagurinn er haldinn, en hann er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.
Umfjöllun á deginum snerist um þá færni sem talin er mikilvægust fyrir starfsmenn framtíðarinnar að tileinka sér.
Viðburðurinn var rafrænn en þúsundir fylgdust með dagskránni, nokkuð fleiri en áður hafa fylgst með dagskrá Menntadagsins. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, opnaði daginn með skemmtilegu myndbroti.
Valinkunnir stjórnendur úr atvinnulífinu fjölluðu meðal annars um topp tíu færniþætti framtíðar eftir viðmiðum Alþjóðaefnahagsstofnunar fyrir árið 2025.
Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi SAF stýrði umræðum um þessa færniþætti undir yfirskriftinni „Strax í dag“. Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, Sigrún Halldórsdóttir, mannauðsstjóri Bláa Lónsins og Ingvi Hrannar Ómarsson, sérfræðingur í skólaþróunarteymi Menntamálaráðuneytisins töluðu hispurslaust um innslög stjórnendanna og um það sem allar menntastofnanir og vinnustaðir geta ráðist í strax í dag:
Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá fór fram og menntasproti og menntaverðlaun ársins voru veitt fyrirtækjum sem skarað hafa fram úr í mennta- og fræðslumálum.
Menntadagur atvinnulífsins 2021
Ungir frumkvöðlar
Líkt og síðustu ár tóku SA þátt í og studdu við alþjóðlega verkefnið Ungir frumkvöðlar. Með verkefninu er ungt fólk í framhaldsskólum hvatt til að leggja fram hugmyndir um nýjungar sem gætu orðið grunnur að fyrirtækjum.
Leiðbeinendur á vegum verkefnisins hafa séð til þess að nemendur hljóti aðstoð við að þróa hugmyndir sínar og við gerð viðskiptaáætlunar. Verkefnin eru kynnt á sýningu sem haldin er um vorið og bestu hugmyndirnar eru verðlaunaðar. Auk þess eru þær hugmyndir sem skara fram úr valdar til að taka þátt í samevrópskri keppni. Á þessum vettvangi hefur orðið til fjöldi hugmynda og verkefna sem nokkur hafa orðið að lífvænlegum fyrirtækjum.
Styrkir til meistaranema í Bretlandi
Samtök atvinnulífsins í samstarfi við breska sendiráðið bjóða upp á Chevening-námsstyrk á Íslandi. Í samstarfinu felst að styrkur er veittur til náms á meistarastigi við háskóla í Bretlandi og nemur 10.000 sterlingspundum á ári. Það er breska utanríkisráðuneytið sem, ásamt samstarfsaðilum, fjármagnar styrkinn en hann er sá virtasti sem veittur er erlendum námsmönnum í Bretlandi.
Fólk sem hyggur á nám sem gæti nýst atvinnulífinu er sérstaklega hvatt til að sækja um styrkinn.
Garðar Örn Garðarsson hlaut styrkinn fyrir námsárið 2020-2021 en hann mun leggja stund á meistaranám í heildstæðum vélrænum gagnanámskerfum við rafeindatækni- og rafmagnsverkfræðideild University College London. Hann er með B.Sc. gráðu í hátækniverkfræði og starfaði hjá EFLU verkfræðistofu á Austurlandi síðustu ár.
Stjórnir og nefndir
Samtök atvinnulífsins eiga í góðu samstarfi við fjölda aðila um framþróun og mikilvæg verkefni í íslensku menntakerfi. Fulltrúar samtakanna sitja til að mynda víða í stjórnum og nefndum þar sem áhersla er lögð á stöðuga þróun og nýsköpun í menntun með það að leiðarljósi að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja og íslensks atvinnulífs. Grunnurinn í þessari vinnu eru sjónarmið og þarfir atvinnulífsins til lengri og skemmri tíma og þau áherslumál sem SA hafa mótað og sett fram varðandi menntamál.
Á meðal þeirra stjórna sem SA eiga fulltrúa í eru Tækniþróunarsjóður, vísinda- og tækniráð, Háskólinn í Reykjavík, fulltrúaráð Bifrastar, Samráðshóp um nám fullorðinna, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Fræðslusjóður, Vinnustaðanámssjóður og nokkra starfsmenntasjóði á borð við SVS, Starfsafl, Landsmennt og menntunarsjóð Stjórnendafélags Íslands.