06

Samskipti og miðlun

Samskipti og miðlun Samtaka atvinnulífsins voru snar þáttur af starfseminni í ár, líkt og fyrri ár. Heimsfaraldur Covid-19 einkenndi vitaskuld fréttaflutning af atvinnulífinu á árinu. Alls var vísað um 2500 sinnum til SA á síðasta ári í hefðbundnum fjölmiðlum, auk þess sem samfélagsmiðlar samtakanna voru efldir og eigin framleiðsla á ýmiss konar efni.

Þau nýmæli urðu á starfsárinu að í gagnið var tekið nýtt og aðgengilegt hljóð- og myndver þar sem framleiðsla á efni innan úr Húsi atvinnulífsins fer nú að langmestum hluta fram, þar á meðal árvissir stórviðburðir samtakanna sem fóru fram með rafrænum hætti. Þá hófst vinna við nýja heimasíðu samtakanna, sem verður tilbúin innan tíðar.

Þá skipaði miðlun upplýsinga fljótt og örugglega á óvenjulegum tímum til félagsmanna stóran sess í starfinu í ár. Reglulegir upplýsingafundir SA voru haldnir um sóttvarnaraðgerðir, útfærslur efnahagsaðgerða sem ríkisstjórnin kynnti í áföngum og horfur í atvinnulífinu til lengri og skemmri tíma. Til þess voru auk okkar starfsliðs, kallaðir til stjórnmálamenn og sérfræðingar um efnið. Öllu var þessu miðlað með rafrænum hætti.

Þau nýmæli urðu á starfsárinu að í gagnið var tekið nýtt og aðgengilegt hljóð- og myndver þar sem framleiðsla á efni innan úr Húsi atvinnulífsins fer nú að langmestum hluta fram, þar á meðal árvissir stórviðburðir samtakanna

Fundir með félagsmönnum: Ráðherrar

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök ásamt Viðskiptaráði Íslands boðuðu til fjölda fjarfunda þar sem félagsmönnum gafst færi á að spyrja ráðherra beint í gegnum fjarfundarforritið um málefni sem á þeim brunnu í upphafi faraldursins. Mikil aðsókn var á fundina.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, reið á vaðið og sat fyrir svörum á slíkum fundi sem rúmlega sjö hundruð félagsmenn sátu. Á eftir komu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra,  Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra. Sumir ráðherranna komu oftar en einu sinni og sátu fyrir svörum á slíkum fundi eftir því sem faraldurinn þróaðist og ný álitamál komu upp.

Höldum áfram

Höldum áfram er yfirskrift fjölbreyttra tillagna Samtaka atvinnulífsins sem allar miða að því að varða leiðinni út úr kórónukreppunni. Á vefsíðunni holdumafram.is má finna tillögur fyrir efnahagslífið í sex flokkum, viðtöl við atvinnurekendur úti í feltinu, fróðlega tölfræði upp úr könnunum sem samtökin hafa gert í gegnum heimsfaraldurinn og svokallaða velferðarreiknivél. Þar er sýnt fram á í tölum hvað starfsfólk og fyrirtæki þeirra leggja til samfélagsins í formi skattgreiðslna.

Tillögurnar sem finna má á vefsíðunni snúa að opinberum rekstri, skattastefnu, regluverki, grænni viðspyrnu, vinnumarkaðnum og menntamálum.

Þar að auki má finna viðtöl við veitingamenn, starfsfólk í ferðaþjónustu, iðnaði, sjávarútvegi, orkuiðnaði, nýsköpun og verslun sem öll greina frá sínum hugmyndum um hvernig megi komast upp úr skaflinum, í sameiningu.

www.holdumafram.is

Upplýsingafundur um ráðningarstyrk og átak stjórnvalda  

Samtök atvinnulífsins héldu rafrænan upplýsingafund fyrir félagsmenn um ráðningarstyrk í samstarfi við Vinnumálastofnun og félagsmálaráðuneytið. Stjórnvöld kynntu til leiks átakið Hefjum störf sem byggir á ráðningarstyrk og er stefnan að skapa allt að 7 þúsund störf með átakinu. Markmið ráðningarstyrks er að auðvelda atvinnurekendum að fjölga störfum í gegnum atvinnuleysisskrá og ýta með því undir hagvöxt og draga úr atvinnuleysi sem er nú í sögulegu hámarki.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, hóf fundinn á því að taka af öll tvímæli um það að ráðningarstyrkurinn sé ekki eingöngu hugsaður fyrir fyrirtæki í rekstrarvanda.  „Þetta úrræði er hugsað fyrir öll fyrirtæki, öll sveitarfélög og öll frjáls félagasamtök. Það er hugsað fyrir stór fyrirtæki, miðlungs og lítil – fyrirtæki í góðum rekstri, miðlungsrekstri og lakari rekstri,” sagði Ásmundur Einar á fundinum.

Hann sagði ráðherra og ríkisstjórnir ekki skapa störf. „Það eru vinnuveitendur sem búa til störf.”

Íslenskt – láttu það ganga

Sameiginlegt kynningarátak stjórnvalda og atvinnulífs undir yfirskriftinni Íslenskt – láttu það ganga hófst með birtingu á opnuauglýsingum í helgarblöðunum, og í kjölfarið fylgdu auglýsingar í útvarpi, vefmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Kynningarátakinu er ætlað að verja störf og auka verðmætasköpun og miðar að því að hvetja landsmenn, almenning og fyrirtæki til viðskipta við innlend fyrirtæki á fjölbreyttum sviðum, við val á framleiðslu, vörum og þjónustu.

Lögð er áhersla á mikilvægi þeirrar keðjuverkunar og hringrásar sem verður til við val á innlendri framleiðslu- og þjónustustarfsemi sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er aukin.

Að átakinu standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samorka og Bændasamtök Íslands.

Átakið er liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19 en með átakinu verður unnið gegn efnahagslegum samdrætti vegna heimsfaraldursins með það fyrir augum að lágmarka áhrifin á atvinnulíf, til skemmri og lengri tíma.

Til þess að styrkja enn frekar við átakið var blásið til jóla-, skemmti-, tónlistar- og viðtalsþáttar í tengslum við Íslenskt – láttu það ganga sem sýndur var í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 og á Vísi. Tugþúsundir horfðu á þáttinn sem bar yfirskriftina Látum jólin ganga. Logi Bergmann Eiðsson og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir stýrðu og fengu til sín fjölmarga gesti.

Markmiðið með þættinum var að stappa stálinu í þjóðarsálina, hvetja landann til að kaupa íslenska framleiðslu, íslenska hönnun, innlendar vörur og þjónustu og þá af innlendum vefverslunum frekar en erlendum keppinautum.

Átakið er liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19 en með átakinu verður unnið gegn efnahagslegum samdrætti vegna heimsfaraldursins með það fyrir augum að lágmarka áhrifin á atvinnulíf, til skemmri og lengri tíma.

Augnablik

Augnablik eru örmyndbönd sem orðin eru fastur liður í málefnastarfi Samtaka atvinnulífsins og eru sérstaklega hugsuð til deilingar á samfélagsmiðlum. Þar eru helstu málefni sem SA vinnur að hverju sinni soðin niður í stutt skýringarmyndband til þess að dreifa á nýjum miðlum, samhliða hefðbundnari leiðum til birtingar.

Skattadagurinn

Hinn árlegi Skattadagur Deloitte, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands var haldinn í janúar. Opnunarávarpið hélt Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA hélt erindið: Hvað heldur aftur af fjárfestingu? Ryðjum hindrunum úr vegi og Haraldur I. Birgisson, meðeigandi Deloitte og sviðsstjóri skatta- og lögfræðiráðgjafar fór yfir helstu skattalagabreytingar sem urðu um áramótin.

Þá urðu þau nýmæli að við bættust erindi frá félagsmönnum SA, en þau voru Hrefna Björk Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Taste ehf., Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju og Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf.

Fræðslufundaröð SA um starfsmanna- og kjaramál

Samtök atvinnulífsins buðu félagsmönnum sínum upp á rafræna fræðslufundaröð í marsmánuði 2021 um starfsmanna- og kjaramál við góðar undirtektir. Fjórir ólíkir fundir fóru fram eftir starfsgrein þar sem farið var yfir fjölbreytt efni og fyrirspurnum svarað. Fræðsluefnið er nú aðgengilegt félagsmönnum á læstu svæði vinnumarkaðsvefsins.

Menntadagurinn

Menntadagur atvinnulífsins fór fram 4. febrúar 2021 en þetta var í áttunda sinn sem dagurinn var haldinn. Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá fór fram með rafrænum hætti og menntasproti og menntaverðlaun ársins voru veitt fyrirtækjum sem skarað hafa fram úr í mennta- og fræðslumálum.

Íslandshótel er Menntafyrirtæki ársins og Domino's Menntasproti ársins. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhentu verðlaunin.

Umhverfisdagurinn

Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður og var haldinn í fimmta sinn þann 14. október.  Að deginum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Að þessu sinni var dagskránni eingöngu streymt rafrænt í opinni dagskrá á vef SA, samfélagsmiðlum og fjölmiðlum.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru veitt í tveimur flokkum, annars vegar fyrir framtak ársins og hins vegar var valið umhverfisfyrirtæki ársins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin.

Netpartar fengu viðurkenningu sem framtak ársins á sviði umhverfismála og Terra fyrir að vera umhverfisfyrirtæki ársins.

Sveigjanleg starfslok

Málefni eldra fólks voru sett á dagskrá og sveigjanleg starfslok rædd á sérstökum umræðufundi, sem stýrt var af Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra SA. Færð voru fyrir því rök að reynslan sem eldra fólk byggi yfir mætti ekki hverfa af vinnumarkaði. Ekki væri aðeins um að ræða lífsgæði og velferð einstaklinganna heldur mikið hagsmunamál fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélagið allt.

Atvinnulífið á verkefni fyrir alla

Á fundi Samtaka atvinnulífsins sem fór fram í nóvember 2020 voru málefni einstaklinga með skerta starfsgetu í forgrunni. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA og Laufey Gunnlaugsdóttir deildarstjóri hjá Vinnumálastofnun undirrituðu hvatningu til atvinnulífsins þar sem skorað er á fyrirtæki og stofnanir að veita fólki með skerta starfsgetu tækifæri til starfa. Fram kom í máli fundargesta að mikilvægt væri að draga úr fordómum. Einstaklingar með skerta starfsgetu hefðu oft á tíðum mikið til málanna að leggja og mikla burði til að sinna störfum við hæfi.

Gestir fundarins voru einstaklingar sem hafa fengið tækifæri til starfa í atvinnulífinu þrátt fyrir skerta starfsgetu, samstarfsfólk, foreldrar og stuðningsaðilar. Vinnumálastofnun kynnti einnig þá þjónustu sem er í boði innan stofnunarinnar og varðar málefnið. Um er að ræða faglegan og fjárhagslegan stuðning.

Þá tóku SA að sér að miðla upplýsingum til aðildarfyrirtækja  og annarra sem vildu kynna sér málið. Þar gátu fyrirtæki kynnt sér leiðir sem í boði eru í gegnum Vinnumálastofnun en þangað má sækja faglegan stuðning auk þess sem fjármagn fylgir verkefninu.

Hvatningarverðlaun jafnréttismála

Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2020 voru veitt tryggingarfélaginu Sjóva, en mannréttindi eru mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins. Á hverju ári eru skilgreindar markvissar aðgerðir í jafnréttismálum innan fyrirtækisins. Hermann Björnsson forstjóri og Ágústa Bjarnadóttir forstöðumaður mannauðs veittu verðlaununum viðtöku.

Sérstök sprotaverðlaun voru veitt fyrirtækinu Pink Iceland, sem jafnframt er eina ferðaþjónustu- og viðburðarfyrirtæki landsins sem einblínir á þarfir og menningu hinsegin fólks. Það var Eva María Þórarinsdóttir Lange, eigandi og framkvæmdastjóri Pink Iceland sem tók við verðlaunum, ásamt meðeigendum sínum þeim Birnu Hrönn Björnsdóttur og Hannesi Páli Pálssyni.

Markmiðið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Að verðlaununum standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Háskóli Íslands.

LEAN Ísland 2020

Niamh McElwain stjórnendaþjálfari hjá Google telur þrautseigju einn af þeim mikilvægustu kostum sem við höfum til þess að komast áfram bæði í atvinnulífinu sem og einkalífinu. Með þrautseigjunni komumst við í gegnum hindranir og mótlæti sem við þekkjum vel á tímum Covid.

Á LEAN Ísland ráðstefnunni sagði Niamh McElwain, stjórnendaþjálfari hjá Google, frá því hvernig við byggjum upp þrautseigju og nýtum hana til þess að komast sem hraðast í gegnum hindranir sem verða á vegi okkar.

Lean Ísland er stærsta stjórnendaráðstefna sem haldin er á Íslandi en hún er nú haldin í níunda sinn af eigendum, Lísu Jóhönnu Ævarsdóttur og Viktoríu Jensdóttur í samvinnu við Samtök atvinnulífsins. Áherslur ráðstefnunnar hafa í gegnum árin ávallt verið þær sömu, umbætur og betri stjórnun.

Aðrir fyrirlesarar komu frá Toyota, LEGO, og Strive change en einnig voru íslenskir gestir úr atvinnulífinu á staðnum til að ræða sína nálgun á málin.

Fyrirmyndarfyrirtæki verðlaunuð og ný útgáfa leiðbeininga um góða stjórnarhætti

Stjórnvísir, Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og Nasdaq Iceland veittu stjórnum sautján fyrirtækja viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og var þeim jafnframt veitt nafnbótin: Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum.

Fyrir tækin sem hlutu nafnbótina að þessu sinni eru:

Verkefnið Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum var sett á legg fyrir tæpum áratug síðan. Með tilkomu þess var ætlunin að bæta stjórnarhætti fyrirtækja á Íslandi og auka eftirfylgni stjórna þeirra við leiðbeiningar um góða stjórnarhætti sem gefnar eru út af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq á Íslandi.

Í verkefninu felst að öllum fyrirtækjum gefst tækifæri til að undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda sinna. Einnig er könnuð fylgni við leiðbeiningarnar, almennar reglur og lög sem gilda um starf stjórna.

Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands og Nasdaq Iceland kynntu jafnframt 6. útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja í febrúar síðastliðnum. Sérútgáfa fylgdi með, með leiðbeiningunum um tilnefningarnefndir.

Atvinnulífið er alls konar

Í tilefni Hinsegin daga lögðu Samtök atvinnulífsins hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna '78 og Tjarnarinnar fyrir ungt fólk lið í formi styrkjar. Með því vildi SA styrkja atvinnulíf framtíðarinnar.

Rannsóknir sýna að fjölbreytt teymi ná betri árangri en einsleit. Fjölbreytileiki í atvinnulífinu er því ekki bara sjálfsögð mannréttindi heldur efnahagsmál sem skiptir okkur öll máli.

Tækifæri til starfsþjálfunar – samstarf við HÍ

Háskóli Íslands, menntamálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök atvinnulífsins tóku höndum saman því skyni að stórefla tækifæri til starfsþjálfunar hér á landi.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Eyjólfur Árni Rafnsson formaður Samtaka atvinnulífsins handsöluðu samkomuleg um þetta efni í apríl.

Um er að ræða 6 ECTS eininga starfsþjálfun á haust- eða vorönn sem felur í sér þjálfun nemenda í að vinna störf undir handleiðslu sérfræðinga. Verkefnin skulu tengjast námi nemenda og reyna á þekkingu og færni sem þeir hafa aflað sér.

Opnunarbjöllu markaða hringt fyrir jafnrétti

Kauphöll Íslands í samstarfi við UN Women á Íslandi, FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu og Samtök atvinnulífsins efndu til viðburðar í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna, þann 8. mars síðastliðinn.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og ráðherra jafnréttismála hringdi opnunarbjöllunni fyrir jafnrétti. Streymt var frá viðburðinum á helstu vefmiðlum og á vef SA.