07

Umhverfismál

Fyrirtæki leggja sífellt meiri áherslu á umhverfismál. Sjálfbær nýting auðlinda er lykillinn að farsælum rekstri margra fyrirtækja. Betri nýting aðfanga, átak til að draga úr myndun úrgangs dregur úr kostnaði og stuðlar að góðri afkomu auk þess að skipta miklu máli til að draga úr áhrifum á umhverfið. Sífellt aukast kröfur almennings um ábyrga stjórnun umhverfismála í öllum rekstri og þeim hefur fjölgað mikið á undanförnum árum sem annast umsjón umhverfismála bæði hjá stórum fyrirtækjum og smáum.

Umhverfisdagur atvinnulífsins

Dagurinn er árlegur viðburður og var haldinn í fimmta sinn þann 14. október.  Að deginum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Að þessu sinni var dagskránni eingöngu streymt rafrænt í opinni dagskrá á vef SA, samfélagsmiðlum og fjölmiðlum.

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði umhverfisdaginn einn mikilvægasta viðburð SA og allra aðildarsamtakanna. Hann rakti að fyrsti starfsmaður sem sinnti umhverfismálum sérstaklega hafi verið ráðinn til Vinnuveitendasambands Íslands árið 1992 og samtökin hafa því í áratugi haft umhverfismál sem meginstef í starfseminni. Fyrir um tveimur áratugum höfðu SA og SI forgöngu um stofnun Úrvinnslusjóðs sem fjármagnar söfnun og endurvinnslu fjölmargra úrgangsflokka s.s. pappa, plasts og spilliefna. Atvinnulífið hefur því ekki einungis lagt sitt af mörkum heldur haft forystu um breytta starfshætti þar sem umhverfisvernd er í forgrunni.

Íslendingar búa vel að gnótt auðlinda til lands og sjávar það eru því hagsmunir okkar að samstaða hafi náðst á undanförnum áratugum um að efla fiskistofna og um nýtingu orkuauðlinda. Ferðaþjónustan þarf að geta fullvissað gesti okkar um að við stöndum vörð um upplifun þeirra og einstaka náttúru landsins til framtíðar og það sama á við aðrar atvinnugreinar sem tengjast beint eða óbeint auðlindagreinum. Það er ekki nóg að við segjum að andrúmsloftið hér sé hreinna en annars staðar og umhverfið fegurra. Við þurfum á að halda nýsköpun og frumkvæði einstaklinga til að draga áfram tækniþróun sem styður við umhverfisvernd og dregur úr mengun til langs tíma. Lausnir í umhverfismálum sem verða til í fyrirtækjum munu á næstu árum verða útflutningsvara. Þekking á orkunýtingu og aukin verðmæti sjávarfangs og framfarir á öðrum sviðum leggja grunn að góðum lífskjörum hér á landi. Framfarirnar byggja á kunnáttu, reynslu og menntun og því skiptir máli að menntakerfið eigi gott samstarf við fyrirtæki um nýsköpun og þekkingaruppbyggingu. Umhverfið verður að vera í öndvegi til framtíðar.

Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar sagði okkur standa frammi fyrir að draga úr losun, minnka plast í hafinu, breyta samgönguháttum, taka upp grænt og hringrænt hagkerfi, styðja líffræðilega fjölbreytni og vernda víðernin. Framtíðin krefst endurnýjanlegrar orku og að breyta þurfi orkukerfum. Hér á landi er talið að 300 MW þurfi til að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og 1200 MW til að ná fullum orkuskiptum.

Hún fjallaði um tækifæri og áskoranir Íslands. Það verði mikil eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku en að framfarir í nýtingu vind- og sólarorku þrengi að samkeppnisforskoti Íslands. Vindorkan hefur hér áhrif á samkeppnishæfni annarra orkukosta þ.e. vatnsafls og jarðvarma. Það þarf að meta hvar megi nýta vindinn og hvar ekki en til að nýta vindorku er unnt að velja svæði á breiðari grunni en þegar um vatnsafl og jarðvarma er að ræða. Landsvirkjun stefnir að kolefnishlutleysi árið 2025 og Kristín rakti hvernig því marki yrði náð.

Að lokum sagði Kristín: „Sjálfbæra samfélagið sem við stefnum á krefst þess að við vinnum endurnýjanlega orku, klárum orkuskiptin á landi, hafi og í lofti og verndum náttúruna.“

Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka fjallaði um græna framtíð og stefnu bankans í umhverfismálum. Hann sagði bankann mikilvægan hlekk í hagkerfinu sem hafi mikil áhrif á hvert stefnir þegar kemur að aukinni sjálfbærni. Verkefnið er að draga úr losun um 8% á ári eða helminga hverjum áratug fram til 2050. Á Íslandi er stefnt að kolefnishlutleysi árið 2040.

Arion banki setti sér umhverfisstefnu árið 2015 og hefur minnkað kolefnisfótsporið um 30% á fimm árum og ætla að ná 40% 2030. Húsnæði hefur verið minnkað, bílaflotinn rafvæddur að hluta, einungis verða keyptir nýorkubílar frá 2023 og samstarf hefur verið við Kolvið um kolefnisjöfnun rekstursins. Starf bankans hefur áhrif á starfsfólk og viðskiptavini. Fjöldi banka hefur skrifað undir meginreglur. Arion banki var einn af fyrstu bönkunum til að skrifa undir meginreglur um ábyrgar fjárfestingar sem kynntar voru af Sameinuðu þjóðunum í fyrra.

Hann nefndi góð dæmi um innlenda fjármögnun m.a. hitaveituvæðingu, sjálfbærar veiðar, nýtingu jarðhita og orkuvinnslu og svo landgræðslu til að draga úr sandfoki. Þegar horft er fram á veginn eru tækifærin víða s.s vindorka, lágvarmavirkjanir, vetnisframleiðsla sem gæti gjörbreytt farm- og farþegaflutningum, kolefnisbinding, umhverfisvottaðar byggingar og sjálfbær ræktun matvæla. Markmiðið er að skapa alvöru hringrásarhagkerfi þar sem allt er nýtt og engu sóað.

Að lokum sagði Benedikt: „Við getum ekki hugsað þannig að við séum svo lítil að við höfum ekki áhrif - lítill banki eða lítið land. Við verðum öll að gera þetta saman til að ná árangri. Við megum engan tíma missa.“

Jónína Guðný Magnúsdóttir framkvæmdastjóri þjónustu- og viðskiptasviðs hjá Terra fjallaði um breytta tíma í endurvinnslu. Heildarmagn úrgangs á Íslandi er um 560 þúsund tonn á ári. Af því fara 60% í endurvinnslu eða endurnýtingu en 40% er urðað. Urðunin kostar um 4 milljarða króna á ári. Nú stefnir í að mun minna verði urðað í Álfsnesi og að svæðinu verði lokað á árinu 2023. Úrgangurinn verður því að fara eitthvað annað. Þar sem engin brennsla úrgangs til orkuframleiðslu er hér á landi má búast við að stór hluti verði fluttur erlendis sem gæti kostað um sex og hálfan milljarð króna á ári. Sá kostnaður fellur á atvinnulíf og skattgreiðendur.

Jónína fjallaði um söfnun lífræns úrgangs og banni við urðun hans innan þriggja ára en það krefst mun betri flokkunar úrgangs á upprunastað. ESB hefur ákveðið að leggja sérstakt gjald á hluti sem gerðir eru úr plasti sem ekki má endurvinna. Hringrásarhagkerfið er ofarlega í huga frumkvöðla og vænta má mikillar þróunar og nýsköpunar. Hún sagði frá nýjum flokkara hjá Terra þar sem unnt er að flokka plast eftir eiginleikum og gerir loks kleift að endurvinna plast í einhverju magni. Þannig skapast nýir möguleikar samfara nýrri tækni. Hentu minna – borgaðu minna er hugtak sem er að ryðja sér til rúms. Þar er kostnaður lagður á þann sem hendir hlutum. Unnt er að stýra aðgangi að sorpílátum fjölbýlishúsa þannig að kostnaðurinn skiptist ekki eftir fermetrum íbúða heldur magni úrgangs.

Jónína lagði áherslu á að við hugsum öll um hringrásarhagkerfið og hverju við töpum ef við gerum það ekki. Hún sagði: „Við höfum ekkert val, það er ekki skynsamlegt að henda verðmætum. Stjórnvöld hafa ákveðið að leggja fram verulegt fé á næstu árum. Hvatinn til að gera betur þarf að vera til staðar. Viljinn og samvinnan þarf að vera til staðar. Kjörorð Terra eru deilum þekkingu, vinnum saman og skiljum ekkert eftir.“

Ari Edwald forstjóri Mjólkursamsölunnar sagði nóg að gerast í verðmætasköpun tengdri mjólk og landbúnaði. Mikil tækifæri eru í landbúnaði og tengdum greinum í græna hagkerfinu sem getur vaxið mikið með tæknibreytingum með áherslu á nýsköpun og umhverfismál.

Undanfarin 10 ár hefur veirð unnið að orkuskiptum við vinnslu mjólkurdufts en framleiðsla þess hefur aukist mikið. Dregið hefur úr losun um 95% eða um 4500 tonn mælt sem koldíoxíðígildi frá 2015 til 2019 en á sama tíma jókst framleiðsla um 43% og orkunýtnin batnaði.

Gufuframleiðslu fyrirtækisins sem er mikilvæg við starfsemina hefur verið breytt. Á þessu ári verður öll gufan framleidd með vistvænni orku. MS verður þá eina mjólkurvinnslan í heiminum sem nýtir alfarið vistvæna orku til framleiðslunnar svo vitað sé.

Máli skiptir einnig að mjólkuriðnaðurinn hefur á grunni búvörulaga skipulagt starfsemi sína og er ferskvara framleidd næst markaðssvæðinu en fjær eru framleiddar vörur sem minnka mest að rúmmáli við framleiðsluna eins og ostar og smjör. Á sama tíma hefur verið hugað að orkuskiptum á bifreiðunum til að ná kolefnishlutleysi. Verið er að skoða hagkvæmni og metans fyrir þungaflutninga.

Aðföng til fyrirtækisins koma víða að og oft í plastumbúðum. Plast sem fellur til við mjólkurvinnsluna á Selfossi fer til endurvinnslu í Hveragerði hjá PureNorth. Samstarfið hófst á síðasta ári og kolefnisspor plastendurvinnslunnar minnkar við þetta um 80%. Plastið er hakkað niður, mótað í perlur og framleiddar eru úr þeim pallettur.

Í undirbúningi er samstarf MS, Terra og Bergplasts um að finna leiðir til að endurvinna umbúðir mjólkurvara innanlands. Tilraunaverkefni er að hefjast um endurvinnslu skyr- og jógúrtdósa. Bergplast vinnur umbúðir fyrir MS og Terra safnar þeim saman frá neytendum að notkun lokinni. Eftir flokkun fær Bergplast plastið aftur og finnur því nýtt hlutverk í öðrum vörum. Orkuskipti og hringrásarhagkerfið hafa því verið ráðandi í umhverfisverkefnum okkar.

Íslenskar mysuafurðir hf hefur unnið að aukinni verðmætasköpun úr hráefnum sem eru til staðar. Til skamms tíma fóru 54 milljón lítrar af mysu í sjóinn. Nú eru framleidd um 400 tonn af hágæða mysupróteindufti. Eftir standa um 12 þúsund tonn af sætum vökva er gerjaður og eimaður og til verður 1,5 milljón lítra af etanóli sem hægt er að breyta í 6,5 milljón flöskur af 40% sterku áfengi eða nýta í ýmsar aðrar vörur. Hrat frá farmleiðslunni má nýta í dýrafóður. Að loknu ferlinu verða eftir um 40 milljón lítrar af hreinu vatni.

Að lokum sagði Ari: „Það er nóg að gerast og ný kynslóð ungra Íslendinga sér sannarlega tækifæri í landbúnaði og hráefnum og aukaafurðum sem gera má úr mikil verðmæti.“

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru veitt í tveimur flokkum, annars vegar fyrir framtak ársins og hins vegar var valið umhverfisfyrirtæki ársins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin. Í valnefnd sátu Bryndís Skúladóttir efnaverkfræðingur, Sigurður M. Harðarson, úttektarstjóri hjá iCert og véltæknifræðingur og Gréta María Grétarsdóttir.

Netpartar fengu viðurkenningu sem framtak ársins á sviði umhverfismála fyrir að vera leiðandi í umhverfismálum við niðurrif bíla og sölu varahluta. Markmið Netparta hefur frá upphafi verið að stuðla að frekari nýtingu notaðra varahluta úr bifreiðum sem og að endurvinna þær með umhverfisvænum hætti til annarra hlutverka. Það leiðir af sér betri nýtingu verðmæta, stuðlar að minni sóun, minni urðun, betra umhverfi og loftslagi. Þannig gegna Netpartar hlutverki í hringrásarhagkerfinu.

Aðalheiður Jacobsen viðskiptafræðingur er framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins. „Ég og við öll hjá Netpörtum erum yfir okkur stolt og þakklát að hafa hlotið þessa viðurkenningu frá atvinnulífinu sem er okkur sannarlega mikil hvatning. Alveg frá stofnun Netparta hafa umhverfismál og samfélagsábyrgð verið okkar leiðarljós, þar sem markmiðið er að sem mest af ónýtum bíl fari aftur í annað hvort nýtilega bílavarahluti eða í önnur hlutverk í hringrásarkerfinu. Við lítum á það sem okkar skyldu að stuðla að minni sóun og urðun fyrir betra umhverfi og loftslagi og við erum þakklát fyrir þann meðbyr sem finnum, frá bæði viðskiptavinum og öðrum.“

Terra fékk viðurkenninguna umhverfisfyrirtæki ársins. Terra hefur starfað við flokkun og söfnun endurvinnslu efna frá árinu 1984 og vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum í endurvinnslu og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að koma öllum efnum sem falla til í viðeigandi farveg og aftur inn í hringrásarhagkerfið.  Terra rekur meðal annars jarðgerðarbúnað til endurnýtingar á lífrænum efnum og gerir viðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með úrgangstölum og endurvinnsluhlutfalli í rauntíma.

Gunnar Bragason, forstjóri Terra tók við verðlaununum fyrir hönd Terra. „Þessi verðlaun eru mikil viðurkenning fyrir okkar starf og góð hvatning fyrir starfsfólk Terra. En við höfum metnað til að gera enn betur. Með nýjum markmiðum, nýjum starfrænum leiðum, grænum fjárfestingum og íslensku hugviti viljum við stíga mikilvæg og græn skref inn í framtíðina, innleiða hringrásarhagkerfi og efla mikið flokkun og endurvinnslu. Þetta viljum við gera í samvinnu við fólkið í landinu, stjórnvöld og íslensk fyrirtæki, til að draga úr mengun og gróðurhúsaáhrifum og skapa um leið hagkvæmara og betra þjóðfélag. Við skiptum því máli. Skiljum jörðina eftir á betri stað en við tókum við henni.”

Loftslagsmál

Fyrirtæki leggja sífellt meiri áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Þau leika lykilhlutverk í aðgerðaráætlun stjórnvalda til að stefna að kolefnishlutleysi og að ná markmiðum Parísarsáttmálans í loftslagsmálum.

Margar atvinnugreinar hafa á undanförnum árum náð verulegum árangri á þessu sviði og birtist það meðal annars í línuritinu sem hér fer á eftir sem sýnir vel hvernig hagkerfið hefur smám saman losað um tengingu hagvaxtar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þótt hér mælist losun á íbúa mikil þá gildir ekki það sama þegar horft er til hversu mikil losun fylgir hverri einingu vergrar landsframleiðslu.

Losun á hverja einingu landsframleiðslu

CO2 ígildi / milljón $ VLF
Heimild: Climate Watch