08

Rekstrarráðgjöf

Rekstrarráðgjöf Litla Íslands er nú hluti beinnar þjónustu Samtaka atvinnulífsins til félagsmanna og hefur þjónustan verið efld. Auk almennrar rekstrarfræðslu geta félagsmenn nú bókað tíma í sérsniðna rekstrarráðgjöf fyrir sinn rekstur, og með því hafa SA verið til staðar fyrir félagsmenn sína á erfiðum tímum. Þjónustan er þó ekki eingöngu hugsuð fyrir fyrirtæki í rekstrarvanda vegna heimsfaraldursins heldur einnig fyrir fyrirtæki í örum vexti, sameiningarferli og þau sem þurfa að sýna fram á rekstrarhæfi sitt í tengslum við fjármögnun.

Í rekstrarviðtali er farið almennt yfir lykilþætti í rekstri en það hefur reynst félagsmönnum vel að nýta tímann til að huga að rekstrargrunni sínum og styrkja hann til að auka viðspyrnugetu eftir kórónuveiruna. Rekstrarúttekt er greining og úttekt á stöðu rekstrar. Ef styrkja þarf rekstrargrunn er félagsmönnum bent á hvar þeir geta leitað frekari aðstoðar við uppbyggingu á sterkum rekstrargrunni. Í endurskipulagningu fá félagsmenn aðstoð við að halda utan um mögulegar úrbætur.

Rekstrarráðgjafi SA er Ingibjörg Björnsdóttir lögmaður en hún hefur áralanga reynslu af fyrirtækjarekstri og rekstrarráðgjöf.

Margt smátt gerir eitt STÓRT

Lítil og meðalstór fyrirtæki eru stór hluti af íslensku atvinnulífi. Árið 2019 greiddu lítil og meðalstór fyrirtæki 70% af heildarlaunum í landinu. Fyrirtæki með allt að 50 starfsmenn greiddu 414 milljarða í laun og meðalstór fyrirtæki með allt að 250 starfsmenn greiddu 241 milljarða. Saman eru því lítil og meðalstór fyrirtæki stór hluti af atvinnulífi þjóðarinnar og því mikilvægt að styðja vel við og efla þau til dáða.

Árið 2019 greiddu lítil og meðalstór fyrirtæki 70% af heildarlaunum í landinu. Fyrirtæki með allt að 50 starfsmenn greiddu 414 milljarða í laun og meðalstór fyrirtæki með allt að 250 starfsmenn greiddu 241 milljarða.

Fræðsluröð um lykilþætti í rekstri

Opin fræðsla um lykilþættina samninga, markmið og fjármál fór fram fyrri part árs. Í stað hefðbundinnar fræðsluraðar í húsi atvinnulífsins fór fræðslan fram í formi hlaðvarpa og rekstraráðsmyndbanda og er aðgengileg á vef Litla Ísland og samfélagsmiðlum.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir lögmaður hjá Fasteignamál Lögmannsstofu slf. fjallaði um kaup og leigu á atvinnuhúsnæði.

Helga Jóhanna Oddsdóttir, alþjóðlegur stjórnendaþjálfari, fjallaði um markmið og mikilvægi þess að þau væru öllum starfsmönnum kunn en ekki einkamál stjórnenda.    

Rannveig Lena Gísladóttir viðskiptafræðingur og viðurkenndur bókari hjá Húnabókhaldi ehf. fjallaði um hlutverk bókhalds í rekstri, ekki síst sem upplýsinga- og stjórntæki varðandi stýringu fjármuna.