SA telja mikilvægt að líta ekki á framfarirnar sem orðið hafa í íslensku samfélagi hvað jafnréttismál varðar sem sjálfsagðan hlut. Í alþjóðlegum samanburði stöndum við á margan hátt framarlega þegar kemur að jafnrétti kynjanna, fjölbreytileika og mannréttindum. Það er ástæða til að fagna þessum árangri á sama tíma og við erum staðráðin í að gera betur.
Í alþjóðlegum samanburði stöndum við á margan hátt framarlega þegar kemur að jafnrétti kynjanna, fjölbreytileika og mannréttindum.
Ungt fólk og atvinnulífið
Ungt fólk og atvinnulífið er nýr vettvangur innan Samtaka atvinnulífsins. Hann var formlega stofnaður á árinu. Hópinn skipa átta ungmenni á aldrinum 16-25 ára. Hugmyndin með að skipa í slíkan hóp er að auka fjölbreytni og stuðla að því að fjölbreyttari sjónarmið komi að því að móta áherslur í starfi SA. Rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að ákvarðanir eru farsælli ef einstaklingar með ólíkan bakgrunn og eiginleika fá sæti við borðið. Hið sama á við um aðra vinnu sem snýr að mótun á áherslum, hugmyndafræði og stefnu í ólíkum málaflokkum.
Hlutverk hópsins er að vera ráðgefandi við starfsmenn og stjórn SA í málefnavinnu, þróunarverkefnum, við gerð umsagna og í kynningarstarfi. Þá er hópnum ætlað að veita endurgjöf á áherslur í málefnastarfi ólíkra málaflokka sem byggja á grundvallarskyldum og tilgangi SA.
Mynd frá stofnfundi Ungmennaráðs
Hvatningarverðlaun jafnréttismála
Árlega koma SA að því að veita Hvatningarverðlaun jafnréttismála sem er ætlað að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn. Um leið er ætlunin að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Háskóli Íslands standa að verðlaununum og er Landsnefnd UN Women á Íslandi sérstakur samstarfsaðili.
Sjóvá tryggingafélag hlaut Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2020, en mannréttindi eru mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins. Á hverju ári eru skilgreindar markvissar aðgerðir í jafnréttismálum innan fyrirtækisins. Fram kom að stjórnendur Sjóvár eru sannfærðir um að áhersla á jafnrétti skilar rekstrarlegum ávinningi og horfa þau á jafnréttismál sem hluta af aðgerðum til að auka arðsemi. Mikið frumkvæði er varðandi ýmis mál hjá fyrirtækinu til að mynda varðandi það að bjóða upp á framlengingu fæðingarorlofs sem nemur sex vikum á 80% launum. Jafnréttissýn og árangur Sjóvár er hvetjandi fyrir önnur fyrirtæki og hefur Sjóvá tekið mjög virkan þátt í umræðum um jafnréttismál.
Sjóvá tryggingafélag hlaut Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2020.
Í ár voru einnig veitt sérstök sprotaverðlaun jafnréttismála. Það var fyrirtækið Pink Iceland sem hlaut þau. Fyrirtækið er eina ferðaþjónustu- og viðburðarfyrirtæki landsins sem einblínir á þarfir og menningu hinsegin fólks. Mat dómara var að skilningur á jafnréttishugtakinu hjá Pink Iceland væri víður. Fyrirtækið einblínir ekki aðeins á tvö kyn heldur er áhersla á það mannlega, að við eigum öll að búa við jafnrétti, virðingu og frelsi. Mannréttindastefna fyrirtækisins er skýr bæði innan fyrirtækisins og út á við. Áhersla er lögð á að stefna og vinnubrögð birgja samræmist stefnu fyrirtækisins. Þá velur fyrirtækið samstarfsaðila sem vinna eftir gæða-, umhverfis- og siðferðilegum kröfum. Fyrirtækið býður samstarfsaðilum sínum upp á fræðslu um jafnréttismál og er þannig hvetjandi afl í að skapa aukið jafnrétti á vinnumarkaðnum og í samfélaginu.
Fyrirtækið Pink Iceland hlaut sérstök sprotaverðlaun jafnréttismála.
Þegar kemur að jafnrétti er mikið verk óunnið. Samtök atvinnulífsins munu áfram taka þátt í að varða leiðina að frekari árangri á því sviði. Verkefnin sem bíða eru ekki aðeins til staðar inni á vinnustöðunum heldur þarf samfélagið allt að taka þátt, atvinnulífið og hið opinbera, meðal annars til að tryggja nauðsynlegar breytingar. Í því getur meðal annars falist rýmkaður opnunartími leikskóla, lokun á umönnunarbili ungra barna og skipulag skólakerfisins.
Atvinnulífið á verkefni fyrir alla
SA blésu til sérstakrar vitundarvakningar og átaks sem snýr að því að veita einstaklingum með skerta starfsgetu tækifæri til starfa. Rafrænn fundur var haldinn þar sem verkefnið var kynnt og áhorfendur fengu að heyra reynslusögur frá einstaklingum, foreldrum og atvinnurekendum sem tekið hafa þátt í sambærilegum verkefnum.
Aðildarfyrirtæki SA hafa aðgang að sérstöku kynningarefni og ráðgjöf frá Vinnumálastofnun sem býður upp á sértæka ráðgjöf og vinnumiðlun fyrir öryrkja og þá sem búa við skerta starfsgetu. Starfsemin er byggð á hugmyndafræði supported employment, sem útleggst á íslensku sem atvinna með stuðningi. Helsta markmiðið er að styðja atvinnuleitendur við að komast á almennan vinnumarkað.
Sveigjanleg starfslok
Enn einn liðurinn í umræðu um jafnrétti og fjölbreytni hjá SA á árinu var umræðufundur um sveigjanleg starfslok og áskoranir sem við blasa í því sambandi. Málið varðar ekki aðeins lífsgæði og velferð einstaklinganna heldur er það mikið hagsmunamál atvinnulífsins alls.
Sveigjanleiki er lykilorð þegar kemur að umræðu um starfsfólk.
Í þættinum var farið yfir málin frá ólíkum sjónarhornum með fjölda gesta. Samstaða var á meðal allra sem fram komu um mikilvægi þess að sveigjanleiki væri aukin í tengslum við starfslok eldri borgara. Mikil verðmæti væru í því fólgin fyrir atvinnulífið að njóta þekkingar og reynslu þeirra sem lengst hafa starfað á vinnumarkaði.
Sveigjanleiki er lykilorð þegar kemur að umræðu um starfsfólk og mikilvægt að aðstæður þróist með þeim hætti á komandi misserum að hægt verði að auka hann og skapa verðmætar aðstæður sem þjóna ekki aðeins eldri borgurum betur heldur einnig atvinnulífinu í heild sinni.